Laun forstjóra í Bandaríkjunum slógu met á síðasta ári en meðalárslaun forstjóra í 133 stærstu fyrirtækjunum vestanhafs voru 11,6 milljónir dala að því er The Wall Street Journal greinir frá. Það samsvarar um 96 milljónum króna á mánuði miðað við gengi dagsins í dag.

Árið 2016 voru meðalárslaun 11,2 milljónir dala. Hækkunin milli ára jafngildir 40 milljónum króna á ári eða hækkun mánaðarlauna um 3,33 milljónir að meðaltali.

Hock Tan, forstjóri Broadcom, sem eyddi stórum hluta síðasta árs í að verjast fjandsamlegri yfirtökutiltilraun frá einum helsta samkeppnisaðilanum Qualcomm, er með hæstu launin sem greint hefur verið frá hingað til. Árslaun hans eru 100 milljónir dala eða sem nemur 10 milljörðum. Það jafngildir rúmlega 830 milljónum á mánuði.

Af öðrum öfgum má nefna tíu ára kaupréttarpakka sem stjórn Tesla hefur óskað eftir að hluthafar samþykki fyrir Elon Musk, forstjóra og stofnanda fyrirtækisins, en pakkinn gæti verið margra milljarða dala virði.