Það eru ekki fyrirhugaðar neinar slíkar breytingar,“ segir Helgi Jóhannson, sparisjóðsstjóri á Ólafsfirði, aðspurður um mögulegar breytingar á rekstri sjóðsins ef samrunaáætlun Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Arion banka gengur eftir. Stjórnir Arion banka og Sparisjóðs Ólafsfjarðar hafa skilað inn samrunaáætlun félaganna til hlutafélagaskrár. Ef samruninn gengur eftir yfirtekur Arion banki Sparisjóð Ólafsfjarðar og mun sjóðurinn bera nafn bankans eftir samrunann en samrunaáætlunin er birt með fyrirvara um samþykki hluthafafundar og Fjármálaeftirlitsins.

98 ára saga
Helgi sem hefur starfað í tæp 30 ár fyrir sjóðinn segist ekki gera ráðfyrir að breytingarnar verði miklarfyrir íbúa Ólafsfjarðar fyrir utan hvað tilfinningar varðar. „Þetta er náttúrlega 98 ára gamall sparisjóður og fólk þekkir ekkert annað. Það eru töluverðar tilfinningar í því. Sjálfsagt eru margir sem eru ekki sáttir við þetta en svona er staðan í dag.“

Sparisjóður Ólafsfjarðar var auglýstur til sölu af hálfu Arion banka í september 2011 ásamt Afli Sparisjóði en þau söluáform gengu ekki eftir. Helgi segir meðal annars þá óvissu varðandi stöðu erlendra lána, sem ekki komi í ljós fyrr en á næsta ári, valdi því að menn haldi að sér höndum. Að hans mati eru núverandi áform um að Sparisjóðurinn fari undir hatt Arion banka eðlileg í kjölfarið á því að af sölu sjóðsins hafi ekki orðið. Helgi segist vona að þetta skref verði farsælt og að íbúum Fjallabyggðar verði áfram boðið upp á kraftmikla þjónustu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.