Í nýrri viðhorfskönnun sem norska rannsóknastofnunum Sintef stóð fyrir og náði til 1.000 fiskimanna í  Noregi í fullu starfi kváðust 99% þátttakenda vera ánægðir í vinnunni. Almenn sögðu þeir heilsu sína góða og starfsánægju mikla.

Um 9.000 manns hafa fulla atvinnu af fiskveiðum í Noregi. Margir eru á úthafsveiðiskipum þar sem vaktaskipti eru viðhöfð en flestir veiða nærri ströndinni og verulegur hluti þeirra er einn á báti. Þeir þættir sem þátttakendurnir í könnuninni meta mest við sjómennskuna er starfsumhverfið, félagsskapurinn um borð og sjálfstæðið sem fiskveiðunum fylgir.

Fiskimennirnir voru m.a. spurðir hvort þeir sæju fyrir sér að vera áfram á sjónum eftir fimm ár. Um 74% svöruðu því játandi, en þeir sem sögðu nei voru annars vegar sjómenn yfir sextugt og hins vegar ungir sjómenn.