Viðskipti með hlutabréf í elsta banka heims, hinum ítalska Monte dei Paschi, hafa verið stöðvuð í kjölfar þess að gengi þeirra hrundi um 23%.

Gerðist það í kjölfar þess að lánastofnunin birti áætlun um úrbætur sem leiddi fyrst til þess að hlutabréfaverðið stökk upp á við um 26,5%.

Reka 10% starfsmanna

Bankinn sem er sá þriðji stærsti á Ítalíu, sagði í áætluninni að hann myndi afskrifa lán í vanskilum, segja upp einum af hverjum 10 starfsmönnum og safna auknu 5 milljörðum evra í aukinni fjármögnun, eða sem nemur 625 milljarðar íslenskra króna.

Evrópski seðlabankinn hafði í apríl gefið þau fyrirmæli til bankans að hann minnki hlutfall vanskilalána í eignasafni sínu.

Þjakaðir af vanskilum

Áhyggjur vegna Ítalskra banka hafa aukist, en margir þeirra eru þjakaðir af gríðarlegum vanskilum og taldir vera uppspretta áhættu fyrir allt hagkerfið.

Í desember var fjórum bankastofnunum bjargað af fjárfestum og ríkisstjórnin leitar að svipuðum lausnum fyrir aðrar.

Stóð allra banka Evrópu verst af sér álagspróf

Monte dei Paschi bankinn reyndist standa verst allra að vígi í Evrópu í nýlegu álagsprófi Evrópusambandsins. Á fimmtudag upplýsti hann um 1,15 milljarða evru tap á þriðja ársfjórðungi, en á tímabilinu afskrifaði hann 1,3 milljarða evrur af undirmálslánum.

Á sama tíma fyrir ári var hagnaður bankans 255,8 milljónir evra. Áður en lokað var fyrir viðskipti í dag, hafði gengi bréfa félagsins tapað nærri 75% af andvirði sínu síðan í byrjun ársins.