Á undanförnum þremur árum hafa 4.000 nemendur sótt námskeið hjá Nóbel námsbúðum í 300 ólíkum námskeiðum. Nóbel námsbúðir standa fyrir 10 tíma námsbúðum fyrir framhaldsskóla- og háskóla nemendur. Sigvaldi Fannar Jónsson framkvæmdastjóri segir vöxtinn hafa verið mikinn á þessum þremur árum. „Skráningin hefur farið vel af stað núna. Við opnuðum fyrir skráningar fyrir viku og erum þegar komin með 800-900 skráningar.“

Nóbel námsbúðir eru byggðar þannig upp að eldri nemendur sem náð hafa framúrskarandi árangri og uppfylla tilteknar kröfur í viðkomandi fagi kenna núverandi nemendum. Sigvaldi segir að þar sem einkakennsla sé of dýr fyrir marga sé hægt að bjóða upp á þjónustuna á hagkvæman hátt. „Nemendur vilja fá jafningjafræðslu og hlutina útskýrða á mannamáli. Við leggjum það á okkur að námskeiðin eru sem skemmtilegust og reynum aðrar og nýrri kennsluaðferðir en hefðbundið er. Ánægjan hefur verið mjög mikil með þetta.“

Nóbel til Bandaríkjanna

Næsta sumar mun Sigvaldi ásamt Davíð Inga Magnússyni framkvæmdastjóra flytja til Los Angeles í Kaliforníu þar sem stofnandi Nóbel námsbúða, Atli Bjarnason, býr. Þar stefna þeir að því að koma upp eins námsbúðum og hér heima undir nafninu NobelAcademy og notast verður við sömu hugmyndafræði. „Við erum núna að ræða við skóla og skoða jarðveginn fyrir sama fyrirkomulag. Þessi jafningjafræðsla virðist ekki þekkjast þarna úti þar sem eldri nemendur kenna og höfum við orðið varir við mikinn áhuga á að því koma uppi sama fyrirkomulagi erlendis.“