Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP er ánægður með að stjórnmálamenn hafi tekið vel í vinnuna á bak við heimasíðu xhugvit.is .

Hópur fyrirtækja í tækni, hugverkum og skapandi greinum, sem falla undir regnhlíf hugverkaráðs innan Samtaka Iðnaðarins, standa að síðunni og hvetur hann almenning til að taka þátt í umræðunni.

Sameiginleg mál sem sett eru á oddinn

„Þetta eru þau sameiginlegu mál sem þessi fyrirtæki og greinar eru sammála um að ættu að vera á oddinum hvað þau varðar. Við höfum unnið mikið á árinu við að setja þetta saman á skipulagðan hátt á síðunni,“ segir Hilmar.

„Við höfum síðan verið að vinna með öllum stjórnmálaflokkum og fengið frábærar undantektir um mörg af þessum málum. Hugmyndafræðin var að hafa það bara skýrt og vel saman tekið hver væru okkar helstu mál og bjóða þau fram sem innlegg í umræðuna.“

Þrjú helstu málin

Á síðunni kennir margra grasa en þau þrjú mál sem Hilmar nefnir sem þau mikilvægustu er menntakerfið, innflutningur erlendra sérfræðinga og loks þök á endurgreiðslum á kostnaði við rannsóknir og þróun.

„Við viljum að tölvunarfræði verði skyldufag, að tekið verði á málefnum kennara og skólastjóra svo fái meira frelsi til athafna og á launamálum þeirra. Þar mætti kannski taka upp finnsku leiðina sem hefur skilað frábærum árangri,“ segir Hilmar.

„Síðan hefur mikill árangur náðst í að búa til góða umgjörð um að fá hingað erlenda sérfræðinga, með þeim breytingum sem gerðar voru fyrr á árinu, með lögum um málefni nýsköpunarfyrirtækja sem lögð voru fram af Bjarna Benediktssyni og fjármálaráðuneytinu.“

Þök hvetja til margra minni verkefna í stað stórra

Loks nefnir hann þök endurgreiðsluhvatakerfinu fyrir rannsóknir og þróun sem sett var á árið 2010.

„Þetta er ekki ósvipað og kvikmyndaiðnaðurinn nýtur, þar sem ákveðið hlutfall af kostnaði sem fellur til á Íslandi er endurgreiddur. Kerfið var rýmkað held ég í vor, en við viljum endilega að þau þök sem eru þár á verði tekin alveg af,“ segir Hilmar.

„Þetta er kerfi sem reynst hefur vel í löndum sem við berum okkur saman við. En ákvæðið um þak á endurgreiðslunni á hvert fyrirtæki er ákveðin yfirlýsing um að stjórnvöld vilji frekar lítil verkefni heldur en stór.“