Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair segir flugfélagið ætla að reyna að koma áætlun sinni í gang í dag, en þó geti orðið seinkanir að því er mbl.is hefur eftir forstjóranum. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá náðust samningar félagsins við flugvirkja sína í nótt, en verkfallsaðgerðir hafa staðið yfir í tvo sólarhringa.

Segir Björgólfur að farþegar sem eigi bókað flug með félaginu í dag hafi fengið upplýsingar í gegnum sms skilaboð og búið sé að gera viðvart í gegnum sérstakt ferðaviðvörunarkerfi félagsins.

Þrátt fyrir það er ljóst að ekki mun allt áætlunarflug félagsins ganga eftir í dag að því er fram kemur á heimasíðu félagsins. Þannig hefur flugi til Orly flugvallar í Parísar og Brussel sem átti að vera klukkan 7:40 í morgun verið aflýst, sem og flugi til Hamborgar klukkan 7:50.

Eru farþegar því hvattir til að fylgjast með upplýsingum frá flugfélaginu og á vefsíðu Keflavíkurflugvallar. Flugi til Glaskow, Amsterdam, Charles de Gaulle flugvallar í París, Gatwick og Heathrow flugvellinna í London sem og til Manchester hefur verið frestað og verður brottfor á bilinu 9:20 til 9:40. Annað flug er á áætlun.