*

föstudagur, 22. mars 2019
Innlent 25. mars 2017 15:09

Að mörgu leyti gölluð

Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um ríflega 30% á tveimur árum en á sama tíma hefur byggingarvísitala hækkað um tæp 8%.

Trausti Hafliðason
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Mummi Lú

Á rétt rúmum sjö árum, eða frá áramótum 2010 og þar til í febrúar á þessu ári, hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 77,3% en á sama tímabili hefur byggingarvísitala hækkað um 30,3%. Ef rýnt er styttra aftur tímann þá hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 31% á rúmlega tveimur árum á sama tíma og byggingarvísitala hefur hækkað um 7,9%.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir engan vafa leika á því að fasteignaverð hafi hækkað miklu meira en byggingarkostnaður undanfarin ár.

„Það er hins vegar mjög mikilvægt að hafa í huga hvað það er sem byggingarvísitalan er að mæla," segir Bjarni Már. „Hún er að mæla kostnað við að byggja fjögurra herbergja staðlað vísitöluhús í úthverfi. Hún er ekki að mæla kostnað við að byggja hús á þéttingarreit niður í miðbæ, sem er miklu dýrara. Síðan vantar fjármagnskostnað inn í þetta, lóðakostnað og hönnunarkostnað. Byggingarvísitalan vanmetur líka launakostnað því hún tekur ekki tillit til markaðslauna heldur einungis kjarasamningsbundinna launa. Að mörgu leyti er byggingarvísitalan því gölluð.

Frá okkar bæjardyrum séð er auðvitað gott að þeir sem eru að byggja hafi hæfilega afkomu af því. Á fáum mörkuðum er jafnmikil samkeppni og á byggingarmarkaði. Það eru ótal mörg fyrirtæki, kaupendur er margir og því tel ég það sé ekki óeðlilega mikill hagnaður hjá þessum fyrirtækjum. Ég treysti því að markaðslögmálin virki."

Á árum áður byggði fólk gjarnan sín eigin hús en Bjarni Már segir að það sé varla hægt í dag.

„Ég held að þetta sé að mörgu leyti liðin tíð, allavega hvað venjulegt íbúðarhúsnæði í borginni varðar. Kröfurnar sem gerðar eru vegna byggingar íbúðarhúsnæðis í dag eru það miklar að það þarf fagþekkingu til að geta staðist þær. Ég held að við hljótum fagna því að séu gerðar mjög ríkar og strangar kröfur því íbúðir og hús eru í langflestum tilvikum verðmætasta eign fólks."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.