Viðskiptablaðið heyrði í Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur klasastjóra Ferðaklasans, en í gær hélt félagið sinn fyrsta aðalfund.

„Hann fór fram í hvalaskoðunarskipinu Eldey, við silgdum út með gestina sem fengu að skoða lunda í kaffihlénu, svona ekki típýski gluggalausi salurinn eins og oft er. Vel sóttur fundur sem var opinn fyrir öllum sem eru í klasanum eða ekki, biðlað til allra sem koma að ferðaþjónustu að koma og vera með.“ sagði Ásta Kristín, en hún segir að fundurinn hafi verið opinn til þess að vekja athygli á klasanum og samstarfinu sem er í honum.

Breiður hópur stendur að klasanum

Íslenski ferðaklasinn var stofnaður 12. mars í fyrra, en 35 aðildarfélagar eru eigendur félagsins í dag, þó ekki bara ferðaþjónustaðilar þó þeir séu kannski í aðalhlutverki, en einnig bankarnir, stærstu verkfræðistofurnar, lögfræðistofurnar, margmiðlunarfyrirtæki, forritarar og nýsköpunarmiðstöð.

„Þetta er mjög breiður hópur sem allir hafa það sama markmið að efla ferðaþjónustu og auka verðmætasköpun til lengri tíma. Þrír kjarnaverkefnastofnar sem við leggjum til grundvallar að vinna eftir á næsta starfsári, það eru s.s. fjárfestingar í ferðaþjónustu, sérstæða svæða og ábyrg stjórnun,“ segir Ásta

„Með ábyrgri stjórnun leggjum við áherslu á samfélagslega ábyrgð og hvernig við vinnum með samfélaginu sem við störfum í. Það er kannski engin launung að farið er að reyna á þolmörk þjóðar gegn ýmsu í ferðaþjónustu, svo við þurfum að vanda okkur vel í öllum verkefnum sem við tökum að okkur.“

Hvort kemur á undan eggið eða hænan

Nefnir hún sem dæmi að oft er talað um að dreifa þurfi ferðamönnum, en það þurfi líka að dreifa fjárfestingum því ferðamenn fara oft þangað sem búið er að byggja upp og fjárfesta.

„Við erum líka svolítið að setja fókus á það hvernig svæði geta komið sér á framfæri þannig að fjárfestar hafi trú á því að þessi svæði verði góð, spurning oft hvort kemur á undan eggið eða hænan. Samvinna ólíkra aðila skilar okkur árangri fyrr en ella, samstarf okkar gengur út á það, að kalla þá til sem virkilega hafa eitthvað til málanna að leggja,“ segir Ásta að lokum.