Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, var tekin tali í Viðskiptablaðinu í vikunni.

Þú talaðir um skattkerfisbreytingar, þýðir það auðlegðarskattur og hærra auðlindagjald? „Ég hef talað fyrir því að það megi hækka fjármagnstekjuskatt eða þrepaskipta honum. Þeir sem eru með verulega háar fjármagnstekjur og jafnvel eingöngu að þær megi skattleggja í takt við launatekjur.“ Skattur á leigutekjur einstaklinga af útleigu stakra íbúða ætti hins vegar ekki að breytast verulega.

„Síðan hef ég horft til hóflegs auðlegðarskatts, 1,5%, með mjög háu frítekjumarki þannig að það væri ekki skattur á einbýlishús ekkjunnar eins og við vorum mjög gagnrýnd fyrir á sínum tíma – ekki að ég telji endilega að sú gagnrýni hafi endilega átt rétt á sér en það er sjálfsagt að læra af framkvæmdinni. Auðvitað er fólk í þessu samfélagi sem á mikil auðævi. Þetta er stefnan í skattaumræðu alls staðar í Evrópu og eðlilegt að horfa til þess. En ég segi líka að mér finnst úrlausnarefni hvernig við sköpum breiða samstöðu um þessar hugmyndir ef við förum í ríkisstjórn. Það er auðvitað verkefni.“

Eru þessir skattar „hugmyndafræðilegir,“ kannski ekki til þess fallnir að skila miklum tekjum? „Það er auðvitað ágreiningur um það, ekki bara hugmyndafræðilegur heldur efnahagslegur, um hversu miklu máli jöfnuður skiptir í efnahagslegu samhengi. OECD, sem telst seint mjög vinstri róttæk stofnun, mælir með því að skattkerfinu sé beitt í auknum mæli til tekjujöfnunar, ekki af hugmyndafræðilegum ástæðum heldur hreinlega vegna þess að kjara- og auðjöfnun í samfélaginu, minni misskipting, sé liður í því að efla hagsæld. Það eru því ekki bara hugmyndafræðileg rök að baki þessum sköttum, heldur líka hagfræðileg. Svo ég blæs á þá gagnrýni.“

Hvað með auðlindagjöld? „Við höfum talað fyrir afkomutengdum auðlindagjöldum í sjávarútvegi. Markmið okkar er fyrst og fremst að sjávarútvegurinn sé sjálfbær, að það sé ákveðin byggðafesta í honum og að arð- urinn skili sér með sanngjörnum hætti til fólks. Ég tel að veiðigjöldin hafi á sínum tíma verið lækkuð allt of skarpt. En ég held líka að það sé mikilvægt að gera greinarmun á útgerðarfyrirtækjum eftir stærð, rétt eins og með ferðaþjónustuna. Fráfarandi ríkisstjórn er að leggja til skattahækkun á ferðaþjónustuna. Ég er ekki hlynnt henni. Það skortir í fyrsta lagi algjörlega greiningu á hvernig hún kemur út fyrir ólíka geira. Ferðaþjónustan er byggð upp af mörgum smáum fyrirtækjum, tæplega 3.000, þó svo að þar séu stór fyrirtæki sem geta borið þetta. Þessi skattahækkun bitnar fyrst og fremst á þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum úti á landi.“

Hvers vegna ertu að þessu? Hverju viltu skila og hver er þín köllun? „Ég er auðvitað mjög pólitísk. Meðan ég er það og brenn fyrir þessu þá er maður dálítið óstöðvandi í þessu. En ég sé ekki fyrir mér að ég verði hér ævilangt. Það er ekki gott fyrir neinn. En eftir síðustu kosningar vorum við átta sem höfðum verið á þingi frá því fyrir hrun. Það er dálítið umhugsunarefni, hversu hröð umskiptin hafa verið í íslenskum stjórnmálum. Fyrir þann tíma, áður en ég kom inn í þetta, var annar hver maður nánast einhvers konar stofnun í þinginu. Núna er mér farið að líða eins og ég sé slík stofnun.

Það er fáránlegt að vera 41 árs og allir eru bara „já, þú ert búin að vera hérna svo ofboðslega lengi, þú manst hvernig þetta er með hitt og þetta.“ Það er áhyggjuefni hvað fólk endist stutt í þessu því þetta er á köflum ekkert sérlega skemmtilegt. En meðan maður brennur fyrir hugsjónum og finnst gaman að vinna með fólki þá finnst mér mjög gaman í vinnunni. En ég sé að þetta fer illa með marga og ég skil það bara mætavel. Maður þarf að læra á þetta og átta sig á því að oft er enginn mælanlegur árangur. Hann er ekki alltaf mikill í stjórnmálum.

En á köflum veltir maður fyrir sér hvort það skipti einhverju máli hvers vegna maður er hérna. Þannig að ég skil alveg að það er margt ósjarmerandi við þetta starf og ég hef áhyggjur af því að ungt fólk hafi ekki áhuga á að vera stjórnmálamenn. Ég skynja að margir brenna upp mjög hratt og það er ekkert skrýtið. Maður er stundum beðinn um afstöðu til einhvers máls sem maður vill kynna sér og hugsa. Svo þegar maður er kominn með afstöðuna þá er málið búið og komið nýtt hneyksli og allir æpandi yfir því. Þannig að ég hef reynt að temja mér að fara ekki alltaf inn í þessa umræðu. Ég ætla ekki að hafa skoðun á öllu sem maður getur verið reiður yfir. Ég held að maður brenni mjög hratt upp á því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.