Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,73% í dag og stendur í 1.763,04 stigum en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 2,5 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,02% og stendur því í 1.361,45 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu rúmlega 2,4 milljörðum króna.

Aðeins eitt félag hækkaði í viðskiptum dagsins en það var Fjarskipti, móðurfélag Vodafone sem hækkaði um 0,79% en í afar óverulegum viðskiptum.

Mest lækkun var hins vegar á Icelandair en hún nam 2,20% í tæplega 591 milljón króna viðskiptum. Við lok dags stóðu því bréf flugfélagsins í 15,55 krónum. Þá lækkuðu bréf Eimskipa næst mest eða um 2,16% í tæplega 25 milljón króna viðskiptum en við lokun stóðu bréfin í 226,50 krónum.

Mest viðskipti voru hins vegar með bréf Marel en þau námu 630 milljónum króna. Bréfin lækkuðu um 0,41% í viðskiptum dagsins og standa því í 364,50 krónum.