Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,76% í dag og endaði í 1.761,79 stigum. Viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 1,4 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,08% og stendur því í 1.367,39 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu rúmlega 2,7 milljörðum króna.

Aðeins tvö félög hækkuðu á markaði í dag. Reitir hækkuðu meira eða um 0,83% í viðskiptum upp á ríflega 296 milljónir króna. Bréf fasteignafélagsins stóðu því í 85,20 krónum við lok dags. Þá hækkuðu bréf Skeljungs um 0,59% en í afar óverulegum viðskiptum.

Mest lækkun var á bréfum N1 en þau lækkuðu um 1,64% í 156 milljón króna viðskiptum og stóðu í 120,00 krónum í lok dags. Þá lækkuðu bréf Marel næst mest eða um 1,07% í tæplega 156 milljón króna viðskiptum en bréf félagsins stóðu í 370,00 krónum við lokun markaða.