Miðstjórn ASÍ hefur hefur sent frá sér ályktun þar sem hún gagnrýnir harðlega nýja fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022. Í ályktuninni kemur meðal annars fram að ASÍ telji að áætlunin feli í sér „alvarlega aðför að velferðarkerfinu“.

ASÍ nefnir þessu meðal annars til stuðnings að þrátt fyrir loforð um aukin framlög til heilbrigðisþjónustu sé rekstur hennar áfram vanfjármagnaður að mati ASÍ.

Í ályktuninni segir einnig: „Skerða á réttindi atvinnuleitenda og stytta á bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 24 mánuði. Þetta er alvarleg aðför að grundvallarréttindum launafólks,“ að mati miðstjórnarinnar.

Einnig bendir ASÍ á að áformuð fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 nemur einungis rúmlega helmingnum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný sjúkrarými til ársins 2020. Enn fremur tekur ASÍ fram að þrátt fyrir stöðuga fækkun barneigna undanfarin ár eru stuðningskerfi við ungt fólk ekki efld.