Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins, flutti ávarp í gær á fundi Samtaka atvinnulífsins, þar sem að hún tók fyrir reynslu fyrirtækisins á stýringu á fjölda gesta og bókunarkerfi Bláa Lónsins. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Dagný sumarið hafa verið „frábært.“ „Við náðum núna í fyrsta skiptið fullkomnri stýringu innan dagsins“ segir Dagný jafnframt.

Í framsögu Dagnýar í gær kemur fram að í byrjun árs 2012 sáu forsvarsmenn Bláa Lónsins það fyrir að mikil fjölgun ferðafólks gæti haft neikvæð áhrif. Þá hafi komið upp hugmynd um að móta tveggja ára áætlun um þróun á rafrænu bókunarkerfi, til þess að lenda ekki vandræðum varðandi umframeftirspurn. Þar af leiðandi hóf fyrirtækið að stýra aðgangi gesta í gegnum bókunarkerfi vorið 2013.

„Það var þannig að sumir tímar dagsins voru vinsælli en aðrir. Við náðum því að nýta jaðartímana almennilega í sumar“ tekur Dagný fram. „Þetta snýst um að dreifa vel eftirspurninni og nýta daginn og mannaflann svo það myndist engir flöskuhálsar.“ Bláa Lónið gerði jaðartímana ódýrari og náði því að stýra fjölda fólks á ákveðnum tímum.

20% aukning en meiri ánægja í sumar

„Það var 20% aukning í sumar, en af því að þetta dreifðist svona vel, þá fundum við engan veginn fyrir því. Álag á starfsfólk var t.d miklu minna“ segir Dagný. Telur hún að það hafi verið erfitt að takast á við áskorunina að koma öllum fyrir áður en bókunarkerfið var tekið upp. „Það komu upp dagar þar sem að fólk þurfti að bíða í biðröð í einn til einn og hálfan klukkutíma, það þótti okkur alveg óboðlegt.“

Dagný ítrekar mikilvægi þess að viðhalda ánægju ferðamanna hérlendis. Kom fram í framsögu hennar í gær að „í reglulegum ánægjukönnunum mælum við almenna ánægju gesta, virði heimsóknarinnar og mælum svo kallað NPS, sem segir til hversu líklegt er að viðkomandi mælir með viðkomandi vöru eða þjónustu sem hann eða hún hefur keypt. Í sumar tók NPS skorið stökk upp um 10 stig frá því í fyrrasumar (eða úr 43 í 54) og það sem mikilvægara er að gestir segja að heimsóknin í Bláa Lónið sé meira virði núna en í fyrra.“

Aðilar í ferðaþjónustu verði að taka skrefið

„Ástæðan fyrir því að við tókum skrefið var að við vildum ekki vera fórnarlömb eigin velgengni og lenda í því að vera alltaf með fullt fangið. Þetta snýst um það, við í ferðaþjónustu almennt, verðum að taka stjórnina. Hugtakið massatúrismi þarf ekkert endilega að lifa ef þú ert með góða dreifingu og stýringu“ bætir Dagný við í viðtali við Viðskiptablaðið.

Að lokum hvetur hún önnur fyrirtæki og aðila í ferðaþjónustu að taka upp svipað bókunarkerfi. Í ræðu sinni í gær segir hún meðal annars að „án þess hefðum við aldrei ráðið við þann mikla vöxt sem orðið hefur á eftirspurn.“ Þó gerir hún sér grein fyrir erfiðleikum varðandi það að Bláa Lónið sé einkafyrirtæki en þannig er ekki háttað með alla ferðamannastaði Íslands. „En Þingvellir eru til dæmis miklu flóknara fyrirbæri.