„Þetta var ekki flókið. Við komumst ekkert áfram í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og þess vegna tökum við þessa ákvörðun,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að nú fari af stað undirbúningur verkfallsaðgerða og hann er bjartsýnn á að hann muni ganga hratt fyrir sig. „Þetta mun taka eina til tvær vikur þannig að aðgerðir munu geta hafist innan þriggja vikna.“

„Við munum nú heyra í okkar félagsmönnum og upplýsa okkar bakland um stöðuna. Það eru auðvitað félagsmennirnir sem taka endalega ákvörðun um hvert framhaldið verður,“ segir Vilhjálmur sem efast ekki um að skjólstæðingar sínir muni samþykkja verkfallsaðgerðirnar. „Fólk sem nær ekki saman endum í hverjum mánuði er sannarlega tilbúið að berjast fyrir sínum kjörum og rétta sinn hlut."

Aðspurður hvort viðræður muni halda áfram á undirbúningstímanum segir Vilhjálmur að ekki muni standa á forsvarsmönnum launþega en áframhaldið sé ekki eingöngu í þeirra höndum. „Ef viðsemjendum okkar snýst hugur og ákveða að leggja eitthvað til umræðunnar þá erum við ávallt reiðubúin til skrafs og ráðagerða. Verkefnið er ekkert að fara frá okkur og á einhverjum tímapunkti munum við skrifa undir nýja kjarasamninga en á meðan atvinnurekendur hafa ekkert til málanna að leggja þá verður það ekki í dag,“ segir Vilhjálmur að lokum.