Donald Trump Bandaríkjaforseti, Theresa May forsætisráðherra Bretlands og Emmanuel Macron forseti Frakklands lýstu því í yfir í tilkynningum til þjóða sinna í nótt að herir landanna hefðu ráðist á skotmörk í Sýrlandi tengdum notkun stjórnvalda í landinu á efnavopnum. Um er að ræða þrjú skotmörk sem öll tengjast getu Sýrlandsstjórnar til að þróa, framleiða og nýta efnavopn.

Ákvörðunin um aðgerðirnar var tekin eftir að efnavopnum var beitt gegn stjórnarandstæðingum í borginni Douma í Sýrlandi 7. apríl síðastliðinn sem myrtu allt að 75 manns. Borgarastyrjöldin í landinu hefur fengið að geisa í landinu í nú hartnær 7 ár, en hún hófst í kjölfar harðra viðbragða öryggissveita Assad Sýrlandsforseta við mótmælum um miðjan mars 2011.

Fimm ár síðan Rússar lofuðu að uppræta vopn Sýrlandsstjórnar

Nálega 5 ár eru síðan efnavopnum var beitt gegn stjórnarandstæðingum í landinu fyrst, eða þann 21. ágúst 2013 í Ghouta héraði við höfuðborgina Damaskus. Þrátt fyrir loforð um að beiting efnavopna yrði til að Bandaríkin myndu grípa í taumana lét þáverandi forseti landsins, Barack Obama, ekki verða af því. Hundruðir dóu í þeirri áras en um 89 í árás sem gerð var í apríl í fyrra í Idlip héraði.

Í stað þess að Bandaríkin gripu til hernaðaraðgerða ákvað Obama að treysta loforðum Rússa um að þeir myndu sjá um eyðingu efnavopna Sýrlandsstjórnar í samstarfi við stjórnvöld þar í landi í kjölfar fyrri árásarinnar. Ýmsir stjórnmálaskýrendur hafa tengt aukna áræðni stjórnvalda í Rússlandi til afskipta utan landamæra sinna sem og mikinn uppgang öfgahópa eins og ISIS í Sýrlandi og Írak við eftirgjöf Vesturlanda í málinu sem hafi verið álitin veikleikamerki.

May tengdi notkun efnavopna á strætum Bretlands og Sýrlands

Theresa May tengdi í ávarpi sínu til bresku þjóðarinnar vegna árásarinnar hana við að eitrað var fyrir rússnesku Scribal feðginunum sem flúið höfðu Rússland og sótt hæli í Bretlandi. ,,Við getum ekki leyft að notkun efnavopna verði gerð eðlileg - hvorki í Sýrlandi, á strætum Bretlands eða hvar sem er annars staðar í heiminum," sagði May.

Macron sagði að farið hefði verið yfir rauðu línuna sem Frakkland hefði dregið í sandinn í maí á síðasta ári. ,,Laugardaginn 7. apríl 2018 í Douma tugir karlmanna, kvenna og barna voru myrt með efnavopnum, í algerri andstöðu við alþjóðalög og ályktanir Sameinuðu þjóðanna," sagði Macron. ,,Staðreyndir málsins og ábyrgð stjórnvalda í Sýrlandi á þeim eru hafin yfir allan vafa."

Spurði hvers vegna Rússar og Íranir vilji bendla sig við fjöldamorð

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur síðan árásin var gerð hótað loftárásunum, en bæði dregið úr og í með þær. Í frétt CNN um málið eru aðgerðirnar nú sagðar hafa verið takmarkaðri en áður þótti líklegt.

,,Árið 2013 lofaði Pútín forseti og ríkisstjórn hans heiminum því að þau myndu tryggja útrýmingu efnavopna í Sýrlandi. Nýleg árás Assad og viðbrögðin í dag eru beint svar við getuleysi Rússa við að halda það loforð," sagði Trump í ávarpi sínu í nótt.

,,Ég spyr Íran og Rússland: Hvers konar þjóð vill láta spyrða sig við fjöldamorð á saklausum karlmönnum, konum og börnum? Þjóðir heims eru dæmdar af þeim vinum sem þau halda. Engin þjóð getur náð árangri á sama tíma og þau styðja við útlagaríki, hrottafengna valdhafa og morðóða einræðisherra."