Seðlabanki Japans tilkynnti í dag um hófsama aukningu á aðgerðum sínum til að örva japanska hagkerfið.

Fólust þær þó hvorki í því að lækka stýrivexti sem eru þegar orðnir neikvæðir, né í því að kaupa japönsk ríkisskuldabréf. Bankinn á nú þegar meira en þriðjung japanskra ríkisskuldabréfa.

Heldur mun seðlabankinn nálega tvöfalda kaup sín á hlutabréfum á japanska hlutabréfamarkaðnum, munu árleg kaup fara úr andvirði 3.300 milljarða jena í 6.000 milljarða jena.

Aðgerðirnar ollu vonbrigðum á mörkuðum en þar höfðu margir búist við að aðgerðirnar yrðu víðtækari og næðu lengra. Er þetta talið til marks um að bankinn sé að nálgast takmörk þess sem hægt er að gera með peningastefnunni einni saman.

Voru viðbrögð markaða vonbrigði og hrundi Nikkei vísitalan til að byrja með um 1,7%, áður en hún náði sér aftur á strik síðar um daginn og endaði á að sýna hækkun sem nam 0,56%.

Breytingar á öðrum vísitölum á svæðinu voru eins og hér segir:

  • Kospi vísitalan í Suður Kóreu lækkaði um 0,24%
  • Taiwan Weighted vísitalan lækkaði um 1,02%
  • Hang Seng vísitalan lækkaði um 1,57%
  • Dow Jones vísitalan í Shanghai lækkaði um 0,60
  • S&P/ASX 200 vísitalan í Ástralíu hækkaði um 0,10%
  • Dow Jones vísitalan í nýja sjálandi hækkaði um 0,57%.