Á allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna spjallaði Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra við bæði Erdogan forseta Tyrklands, og Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra landsins, um stöðu mála í Tyrklandi eftir valdaránstilraunina í sumar.

Fordæmir valdaránstilraun

„Ég áréttaði fordæmingu okkar á valdaránstilrauninni sem beindist gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum og samúð með tyrknesku þjóðinni. Þá greindi ég utanríkisráðherranum jafnframt frá afstöðu okkar sem lúta að því að mannréttindi séu virt í hvívetna. Það var fróðlegt að heyra sjónarmið tyrkneskra stjórnvalda frá fyrstu hendi og við vorum sammála um mikilvægi þess að tyrknesk stjórnvöld vinni áfram náið með Evrópuráðinu og öðrum alþjóðastofnunum," segir Lilja í fréttatilkynningu.

Tyrkneski utanríkisráðherrann ítrekaði mikilvægi þess að virða sjálfstæði dómstóla.

Konur auka líkur á friði

Jafnframt ræddi Lilja á ráðherrafundi um flóttamannamál hjá samtökunum um mikilvægi þess að konur kæmu að friðarviðræðum og sáttaumleitunum, meðal annars í Sýrlandi. Sagði hún að aukin aðkoma kvenna að friðarviðræðum myndu auka líkur á að friður náist og að hann haldist til lengri tíma litið.

„Með því að auka hlut kvenna í þessum málaflokki er hægt að leita lausna við mörgum þeirra vandamála og stuðla að mannúðlegri heimi. Konur verða að eiga sæti við borðið," sagði Lilja Alfreðsdóttir, sem jafnframt gerði grein fyrir þeim 2,4 milljón Bandaríkjadala, eða jafngildi um 277 milljóna króna, sem Ísland legði til Flóttamannastofnunar SÞ og mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.