Markmið ríkisstjórnarinnar virðist vera að aumingjavæða sjávarútveginn, að sögn Adolfs Guðmundssonar, formanns LÍÚ, en hann tók þátt í pallborðsumræðum á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Sagði hann að rangt sé að tala um að framlegð í sjávarútvegi sé 60-70 milljarðar og því sé hægt að taka 15-20 milljarða út úr greininni í formi veiðigjalds. Hafa beri í huga að vaxta- og afborgunarkostnaður sé í kringum 50 milljarðar og þá verði lítið eftir til að setja í reksturinn þegar búið sé að innheimta veiðigjaldið. Sagði hann að ef frumvarpið yrði að lögum yrðu útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins.

Þegar Adolf hafði lokið máli sínu benti Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, á Kristján Ragnarsson, fyrrverandi formann og framkvæmdastjóra LÍÚ, sem sat í salnum, og sagði að nú væru útgerðarmenn farnir að tala eins og þeim væri von og vísa. Kristján reis þá úr sæti og spurði Steingrím hvort hann mætti ekki einu sinni mæta á fundi í friði. Tíu ár væru liðin frá því að hann hætti störfum hjá LÍÚ. Steingrímur bað hann þá afsökunar, en sagði þó að Kristján hefði leikið hlutverk í þessari umræðu á sínum tíma.