Benedikt Gíslason, framkvæmdastjóri bankasviðs MP banka, hefur látið af störfum til að taka við starfi sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Störf Benedikts fyrir ráðherra munu m.a. snúa að ráðgjöf um framkvæmd áætlunar um afnám gjaldeyrishafta og tengd mál.

Í tilkynningu frá MP banka kemur fram að starfsskyldur og réttindi Benedikts gagnvart bankanum falla niður frá og með deginum í dag. Gísli Heimisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs bankans,  mun taka við stjórn bankasviðsins af Benedikt. Gísli Heimisson hóf störf hjá MP banka árið 2009 og hefur áratuga reynslu af störfum innan banka- og upplýsingatæknigeirans.

„Það er jákvætt að leitað sé til sérfræðinga bankans um að taka að sér þjóðhagslega mikilvæg ráðgjafarstörf. Verkefnið við afnám gjaldeyrishafta er brýnt og starfslok Benedikts eru í góðri sátt á milli aðila. Gísli Heimisson tekur við keflinu af Benedikt innan bankans. Þar er reynslumikill stjórnandi og bankamaður á ferð sem halda mun áfram uppbyggingu bankasviðs MP banka með áherslu á sérhæfða viðskiptabankaþjónustu.“ segir Sigurður Atli Jónsson forstjóri MP banka í tilkynningu.