Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga lækkaði um hálfan milljarð á síðasta ári, en frá árinu 2013 hefur heimilum sem þiggja hana fækkað um 2.900. Um er að ræða aðrar greiðslur en atvinnuleysis- eða örorkubætur, eða annars konar millifærslugreiðslur á vegum ríkisins.

Heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum hefur fækkað síðustu fjögur árin að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Fækkaði um 2.900 heimili frá því að það voru mest ríflega 8 þúsund heimili árið 2013 sem þáðu fjárhagsaðstoðina. Jafnframt hefur heildarfjárhæðin lækkað á sama tíma um ríflega 1,3 milljarða, eða 29,5%, úr því að vera mest ríflega 4,5 milljarðar.

Greiddu 3,2 milljarða í heildina

Lækkuðu útgjöld sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar um hálfan milljarð á milli áranna 2016 og 2017, en í heildina greiddu þau 3,2 milljarða í fjárhagsaðstoð á síðasta ári. Árið 2017 fengu 5.142 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði þá heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 716, eða 12,2% frá árinu áður.

Frá árinu 2013 hefur heimilum með slíka aðstoð fækkað ár eftir ár, eftir að hafa fjölgað árlega frá árinu 2007, þegar þau voru 4.280. Eins og gefur að skilja hefur breyting í fjölda heimila sem fá fjárhagsaðstoð haldist í hendur við þróun atvinnuleysis.

Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar voru rétt rúmlega 137 þúsund krónur árið 2017, en það ár var fjárhagsaðstoðin greidd að meðaltali í 4,5 mánuði. Árið 2016 hafði meðaltíminn verið 4,7 mánuðir.

Nálægt helmingur til einstæðra barnlausra karlmanna

Einstæðir barnlausir karlmenn fengu 43,5% af fjárhagsaðstoð síðasta árs og einstæðar barnlausar konur fengu 22,1% hennar. Einstæðar konur með börn fengu 23,4% aðstoðarinnar, en heimili hjóna eða sambúðarfólks fengu 8,6% aðstoðarinnar.

Árið 2017 voru 31,4% viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og af þeim 84% án bótaréttar, alls 1.359 einstaklingar. Árið 2017 bjuggu 8.223 einstaklingar eða 2,4% þjóðarinnar á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð, þar af voru 2.887 börn, það er miðað við 17 ára og yngra eða 3,6% barna á þeim aldri.

Árið 2016 bjuggu 9.697 einstaklingar eða 2,9% þjóðarinnar á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð, þar af voru 3.317 börn eða 4,2% barna.

Færri börn í dagvist en fleira eldra fólk fá félagslega heimaþjónustu

Á sama tíma og þessi fækkun á sér stað fjölgaði þeim sem þáðu félagslega heimaþjónustu, eða um 1% árið 2017. Þá fengu 9.131 heimili slíka þjónustu en þar af voru um 81% þeirra heimili aldraðra.

Fá nú 19% landsmanna 65 ára og eldri, eða 9.284 einstaklingar félagslega heimaþjónustu, en þegar hlutfallið er komið í 46% hjá þeim sem eru 80 ára og eldri.

Árið 2017 fækkaði einnig börnum í dagvist á einkaheimilum, eða um heil 7% frá árinu 2016. Alls voru 5,2% barna að 5 ára aldri í þess háttar dagvistun, en hlutfallið er rúmlega 4% fyrir börn á fyrsta ári. Af eins árs gömlum börnum eru 28% í dagvistun á einkaheimili.