Tæknisamsteypan Advania, stefnir nú á skráningu í sænsku kauphöllinni árið 2018. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins. Fyrirtækið er afsprengi fyrirtækjanna Eskils, Kögunar, Landsteina Strengs og Skýrr. Sænska fyrirtækið AdvInvest, keypti nýlega ráðandi hlut í félaginu. Advania er engu að síður íslenskt félag, sem skapar um 1.000 störf á öllum Norðurlöndunum.

Stjórn Advania endurkjörin

Á seinasta aðalfundi félagsins var ný stjórn endurkjörin. Í stjórninni sitja þrír aðilar - þau Thomas Ivarson, Bengt Engström, og Birgitta Stymne Göransson. Öll hafa þau víðtæka og alþjóðlega reynslu úr upplýsingatæknigeiranum. Þau hafa setið í lykilstöðum hjá stórum félögum á borð við EHPT AB, Fujitsu Nordic, og Telefos Group.

Rekstrar hagnaður eykst milli ára

Heildartekjur Advania á árinu 2015 námu 20.510 m.kr. og jukust um 1,9% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.067 m.kr. og jókst um 5,1% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall hækkaði úr 27,6% í 28,2% milli ára. Hagnaður samstæðunnar af reglulegri starfsemi nam 159 m.kr. Að teknu tilliti til afkomu af aflagðri starfsemi og þýðingarmunar vegna eignarhluta í erlendum dótturfélögum (gengisþróunar), nam hagnaður af rekstri samstæðunnar 147 m.kr. Eiginfjárhlutfall var 13% í árslok 2015.

Sænska kauphöllin varð fyrir valinu

Um 59% af rekstrarhagnaði Advania varð til á sænska markaðnum árið 2015. Í ljósi sterkar stöðu félagsins á Norðurlöndum og vaxtarmöguleikum þar er stefnt að skráningu félagsins í Kauphöllina í Stokkhólmi á árinu 2018.  Markmið skráningarinnar er tvíþætt, annars vegar stuðningur við áframhaldandi þróun og uppbyggingu á Norðurlöndum og hins vegar frekari styrking á eigin fé félagsins.