Advania hefur fest kaup á Tölvumiðlun og bíður nú eftir að Samkeppniseftirlitið leggi blessun sína yfir kaupin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania. Félagið mun tilheyra að mestu launa- og mannauðslausnum fyrirtækisins eftir sameiningu.

„Í þessari sameiningu felst mikill styrkur þar sem Tölvumiðlun hefur á að skipa framúrskarandi sérfræðingum sem slást nú í okkar hóp. Við sjáum líka fyrir okkur að við getum aukið og bætt þjónustuna við viðskiptavini með  krosssölu og samþættingu á tímaskráningalausnum auk þess sem þróun verður markvissari á mannauðslausnum. Þá má gera má ráð fyrir því að möguleg tækifæri opnist erlendis“, segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Helstu vörur Tölvumiðlunar eru H3 launa- og mannauðskerfi, SFS fjárhagskerfi og ýmsar sérlausnir. Lykilvara Tölvumiðlunar er H3, heildarlausn í mannauðsmálum (laun, mannauður, ráðningar, áætlanir og fræðsla) en sú vara er útbreitt kerfi sem Advania telur að muni styrkja vöru-og þjónustuframboð sitt.

Okkar áhersla hefur alltaf verið gæði, metnaður og þjónusta og á því verður engin breyting. Við höfum lagt mikla áherslu á vöruþróun og þá sérstaklega á H3 launa- og mannauðskerfinu okkar.  Sameiningin gerir okkur mögulegt að nýta styrk sérfræðinga Advania til áframhaldandi þróunar hugbúnaðarlausna með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi. Við lítum framtíðina með Advania björtum augum og sjáum fram á spennandi tíma framundan með krefjandi verkefnum, fjölbreyttara lausnaúrvali og framúrskarandi þjónustu“, segja Daði og Brynjar framkvæmdastjórar hjá Tölvumiðlun.