Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kynntu víðtæka áætlun um sjávarútvegsrannsóknir í Tromsö í dag. Markmið áætlunarinnar er að auka nýsköpun og ýta undir virðisaukningu í greininni.

E24 hefur eftir tilkynningu frá ríkisstjórninni að markmiðið sé að fimmfalda tekjur af sjávarútvegi til ársins 2050. Árið 2010 voru tekjurnar um 100 milljarðar norskra króna, en samkvæmt áætluninni er stefnt að því að tekjurnar verði um 550 milljarðar norskra króna árið 2050. Það er jafnvirði um 8.500 milljarða íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Á meðal þess sem ráðherrarnir kynntu í dag er að í fjárlögum norska ríkisins á næsta ári verði 170 milljónum norskra króna, jafnvirði 2,6 milljarða íslenskra króna, úthlutað til sjávarútvegsrannsókna. Meirihlutinn á að renna til viðhalds og kaupa og rannsóknarskipum. Í frétt E24 kemur fram að norski rannsóknarskipaflotinn sé einn sá besti í heimi, en nýjasta skipið er frá 2003.