Gert er ráð fyrir að veiðigjaldið verði hækkað um helming í haust; að þá borgi útgerðirnar um 5 milljarða króna á ári fyrir nýtingarrétt af fiskveiðiauðlindum. Því fé verði varið í verkefni á landsbyggðinni.

Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV .

Samkvæmt frumvarpinu leigja útgerðirnar aflaheimildirnar til fimmtán ára. Hægt verður að endurnýja leigusamningana þegar leigutíminn er um það bil hálfnaður. Til að byrja með fara 8 prósent aflaheimilda í potta - það er sama hlutfall og varið hefur verið í byggðakvóta. Í frétt RÚV segir að eftir því sem næst verði komist aukist hlutfall í pottunum hins vegar smám saman þangað til það verður orðið 15 prósent af heildarkvóta eftir 15 ár. Það gæti þó gerst hraðar með mikilli aflaaukningu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar vildu hafa pottana stærri, um 20 prósent af heildaraflaheimildum. Framsal aflaheimilda verður takmarkað við kerfisbreytingarnar en verður úr sögunni á 15 árum. Gert er ráð fyrir að þessar kerfisbreytingar taki gildi fyrsta september 2012, verði lögin samþykkt.

Framsal bannað

Þá segir á Vísir.is að samkvæmt því frumvarpinu sem sent hefur verið þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna verður alfarið bannað að framselja varanlegar aflaheimildir. Áfram verður hinsvegar hægt að framselja leigukvóta, það er kvóta til eins árs.