Á þriðja umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, sem haldið var í Naíróbí í Kenía í síðustu viku, var samþykkt yfirlýsing um að koma í veg fyrir alla losun plasts í höfin. Meira en 200 ríki undirrituðu ályktun þingsins þess efnis og vonast er til þess að þessi ályktun verði upphafið að því að ríki heims geri með sér bindandi samkomulag um algert bann við plastlosun.

Lisa Svensson, sem er yfirmaður málefna hafsins hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sagði í viðtali við BBC að plastmengun í hafinu sé vandamál alls heimsins: „Á þeim fáu áratugum sem liðnir eru frá því við uppgötvuðum þægindi plastsins, þá erum við tekin að eyðileggja vistkerfi hafsins.“

Nú þegar er í gildi bann við því að henda plasti í hafið af skipum en til þessa hafa engin alþjóðalög verið sett sem hindra það að plasti sé hent í hafið af landi.

Svensson segir það geta tekið áratug að ná fram alþjóðlegu banni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Því til viðbótar gæti það tekið tvö ár að fá nægilega mörg ríki til að staðfesta slíkan samning.t

Í byrjun þessa árs var birt skýrsla í tengslum við efnahagsráðstefnuna World Economic Forum í Davos í Sviss, þar sem fram kom að á næstu tuttugu árum muni plastmagnið í höfunum tvöfaldast, og verði ekkert að gert verði árið 2040 orðið meira af plasti í höfunum en fiskur.

Samkvæmt Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna er átta milljón tonnum af plasti nú losað í hafið árlega.

[email protected]