Bensínstöð Atlantsolíu í Kaplakrika býður nú lægsta eldsneytisverð á landinu segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Bensínlítrinn er á 189,9 krónur og dísillítrinn á 182,9 krónur. Ekkert meðlimgjald, engir afslættir, bara lágt verð segir félagið sem alla jafna býður þeim sem eiga lykil frá félaginu á afslátt af eldsneyti á sínum sölustöðum, en það mun ekki þurfa þarna.

Atlantsolía býður upp á lægsta eldsneytisverð á landinu á bensínstöðinni í Kaplakrika frá og með deginum í dag, 1. maí, segir í tilkynningunni, en nú í um það bil ár hefur bensínið verið ódýrast á bensínstöð Costco í Kauptúni í Garðabæ og fólk flykkst þangað til að kaupa bensín meðan verslunin er opin.

Bensínlítrinn kostar nú 189,9 krónur en dísillítrinn 182,9 krónur í stöðinni í Kaplakrika. Það er lægsta eldsneytisverð á landinu – án meðlimagjalds, fullyrðir Atlantsolía. Allir viðskiptavinir fá sama lága eldsneytisverðið í Kaplakrika óháð fríðindakerfum, meðlimagjöldum eða öðrum afsláttarkjörum.

Lægst án allra skilyrða

„Atlantsolía hefur alltaf reynt að bjóða samkeppnishæf eldsneytisverð, hvort sem er með afsláttum sem fylgja dælulyklinum eða öðrum sérkjörum,“ segir Rakel Björg Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu. „Nú ætlum við að bjóða nýjan valkost á stöðinni okkar í Kaplakrika í Hafnarfirði, afnema alla afslætti og bjóða upp á lægsta eldsneytisverð á landinu - án nokkurra skilyrða.

Hér er öllum velkomið að dæla, okkar viðskiptavinum sem öðrum, og eins og alltaf er hægt að greiða með dælulyklinum eða greiðslukorti, allt eftir því hvað fólki hentar. Og stöðin í Kaplakrika er opin allan sólarhringinn.“

Atlantsolía rekur nítján sjálfsafgreiðslustöðvar, tólf á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og sjö á landsbyggðinni. Viðskiptavinir Atlantsolíu fá áfram afslátt af eldsneyti með dælulykli á öðrum stöðvum Atlantsolíu auk sérkjara á ákveðnum bensínstöðvum en í Kaplakrika munu hins vegar allir fá sama lága eldsneytisverðið, án afsláttar.