Donald Trump, tilvonandi forseti Bandaríkjanna, ætlar að leggja 35% skatt á bandarísk fyrirtæki sem fara úr landi með starfsemi sína. Þetta sagði Trump á Twtitter-síðu sinni í dag.

„Bandaríkin ætla að lækka skatta og smækka regluverk fyrirtækja með stórfelldum hætti, en fyrirtæki sem fara frá landinu okkar og setjast að annars staðar, reka vinnuaflið sitt, reisa nýja verksmiðju í öðru landi og þykjast svo ætla að selja vörur sínar aftur til Bandaríkjanna án refsingar eða afleiðinga hafa RANGT fyrir sér. Það verður skattur á landamærum okkar, sem verða sterk í bráð, upp á 35% fyrir fyrirtæki sem vilja selja vörur sínar aftur yfir landamærin,“ segir Trump.

Hugmyndin með skattinum, að sögn Trumps, er að gera fyrirtækjum fjárhagslega erfitt með að fara með starfsemi sína úr landi, enda væru það „dýrkeypt mistök“. Fyrirtækjum verður þó frjálst að færa vörur sínar og þjónustu milli ríkjanna 50 innan Bandaríkjanna og engir tollar eða álögur verða milli ríkjanna.

Trump ítrekar að lokum að opið sé fyrir viðskipti við Bandaríkin.