*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 30. júní 2013 09:55

Þarf að rukka Kára Stefánsson fyrir garðinn í dómsal

Guðmundur Jónsson segir erfitt að rukka Kára Stefánsson. Nær allir hafi þurft að fara í mál sem komu að verki fyrir hann.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

„Það er ekki hægt að vinna fyrir Kára öðruvísi en að rukka hann með lögfræðingum,“ segir Guðmundur Jónsson hjá Torfi túnþökuvinnslu á Hvolsvelli. Hann hefur stefnt Kára Stefánssyni, forstjóra og stofnanda DeCode, vegna vangoldinna reikninga upp á þrjár miljónir króna. Fyrirtæki Guðmundar sá um að tyrfa lóð við nýlegt hús Kára við Fagraþing í Kópavogi. Húsið er engin smásmíði, rúmir 500 fermetrar að stærð og lóðin eftir því.

Bygging hússins hefur ekki gengið vandræðalaust fyrir sig. Árið 2010 stefndi byggingafélagið Eykt Kára vegna 11 milljóna króna viðbótarkostnaðar við byggingu hússins og þurfti rafverktakinn Elmax þurfti að fara með ógreidda kröfu á hendur honum fyrir dóm. Kári tapaði málinu i Héraðsdómi Reykjavíkur en fór þá með það í Héraðsdóm Reykjaness. Þá hótaði Kópavogsbær því að sekta Kára vegna tafa við frágang á lóðinni við húsið árið 2010. Túnþökuvinnslan tók verkið að sér í fyrrahaust. 

Þurfti að vinna verkið aftur

Guðmundur segir í samtali við vb.is farir sínar ekki sléttar. Hann segir fyrirtækið hafa lagt torf á lóðina við hús Kára en hönnuði hússins og lóðarinnar snúist hugur, hann gert breytingar og látið vinna verkið aftur. Guðmundur segir að ætlast hafi verið til þess að verktakinn tæki á sig kostnaðinn við að vinna verkið aftur. 

„Ég kom að þessu verki vegna þess að enginn vildi vinna fyrir Kára, tók ábyrgð á þessu öllu saman og skaffaði menn, efni og vélar og borgaði það. Ég ætlaði aðeins að selja honum torf og við ætluðum að hespa þessari lóð af. Við sömdum um að gera upp vikulega. Síðan dróst það í tvær vikur og þá varð allt vitlaust og ég sit uppi með útlagðan kostnað," segir Guðmundur og rifjar upp að allt sé á sömu bókina lagt í tengslum við byggingu hússins. 

Sáttur við að málið fari fyrir dóm

Kári Stefánsson er sáttur við að málið fari fyrir dómstóla. 

„Þetta er bara maður sem bauð í verk. Hann bauð í það ákveðna upphæð. Þegar hann var hálfnaður með verkið þá sendi hann okkur reikning sem var þremur milljónum krónum hærri en sem nam heildarupphæðinni í verkið án þess að fyrir því fyndist nokkur skýring. Ég er ósköp sáttur við það ef hann vill fara með málið fyrir dóm til að skera úr um hvor okkar hefur rétt fyrir sér. Til þess eru dómstólar," segir Kári í samtali við vb.is.