Alex Cruz forstjóri breska flugfélagsins British Airways ætlar ekki að segja af sér eftir að bilun í tölvukerfi félagsins varð þess valdandi að aflýsa þurfti yfir 600 flugferðum á laugardag og sunnudag. Í viðtali við BBC sagði Cruz að bilunin sjálf hafi einungis varað í nokkrar mínútur en að varakerfi flugfélagsins hafi brugðist.

Hann sagði einnig að flutningur tæknideildar BA frá Bretlandi til Indlands væri ekki ástæða bilunarinnar og bætti við að ekkert benti til þess að félagið hefði orðið fyrir tölvuárás.

Cruz sem var ráðinn forstjóri British Airways á síðasta ári hefur verið kennt um bilunina og sögðu forráðamenn breska stéttarfélagsins GMB að hægt hefði verið að koma í veg fyrir alvarleika bilunarinnar ef störfum tæknideildarinnar hefði verið haldið á Bretlandi.