Björgólfur Thor staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að söluverð Nova væri yfir 15 milljörðum króna. Segir hann söluferlið hafa tekið um þrjá til fjóra mánuði en hann ætli ekki að fjárfesta söluandvirðinu hér á landi.

Segist fá uppsett verð

„Ég er að fá uppsett verð, sem var ekki undir því, en ég sagði að ég myndi aldrei láta þetta fara fyrir minna en það,“ segir Björgólfur segir ekki vænta þess að þetta breyti miklu í starfsemi fyrirtækisins.

„Fyrir starfsfólkið og viðskiptavini Nova er þetta í raun langbest að því leitinu til að þetta er fjárfestingarsjóður eins og við, hann er ekki á Íslandi, heldur erlendis, hann kemur og fylgist með, og leyfir starfsfólkinu að reka fyrirtækið eftir sýnum áætlunum.“

Kemur í veg fyrir hringamyndun

Segir hann þetta koma í veg fyrir hringamyndun og hagsmunaárekstra eins og hætta sé á í svona litlu samfélagi þegar margir eru farnir að eiga sömu fyrirtækin.

„Þetta er frábært, þess vegna var ég tilbúinn að stíga upp í dans í þessu tilviki því þetta er erlent fjármagn að koma inn í landið. Mér var í raun ekki sama hver keypti fyrirtækið, bæði starfsmannanna vegna og vegna viðskiptavina Nova,“ sagði Björgólfur sem segist ekki ætla að fjárfesta söluandvirðinu áfram hér á landi.

„Nei, ég kom með þessa peninga til Íslands og er að fara með þá aftur út. Ég ætla ekki að vera að fjárfesta á Íslandi, ég er búinn að vinna akurinn annars staðar.“

Fólk sagði þetta ekki vera hægt

Björgólfur er ákaflega stoltur af því að hafa tekið þá áskorun að hefja starfsemi Nova hér á landi.

„Fólk sagði að þetta væri ekki hægt, að stofna fyrirtæki frá grunni og fara í samkeppni við sterka aðila sem voru fyrir á þessum markaði,“ sagði Björgólfur.

„Á 10 árum erum við búnir að fara úr engu í það að vera stærsta fjarsímafyrirtæki á landinu. Við skuldum ekki krónu, við erum með nokkur hundruð milljónir inn á bók enda gerðum við þetta sjálfir.“

Burstaði Símann og Vodafone

Björgólfur segir sérstaklega gaman að hafa burstað bæði Símann og Vodafone. „Þetta er skemmtilegt með góðu teymi, við vorum valdir vinsælasta fyrirtækið fimm ár í röð, þannig að ég er ótrúlega stoltur af mínu fólki og fyrirtækinu.“