Lífeyrissjóðirnir segjast nú endurmeta stöðu sína í kjölfar sölunnar á hlut í Arion banka en fyrir söluna á tæplega 30% hlut í Arion banka voru samningaviðræður við lífeyrissjóðina komin á lokastig.

Hlé var gert á þeim viðræðum þegar Kaupþing ákvað að ljúka viðræðum við hluta af eigendum sínum, en þau kaup urðu mun umfangsmeiri en lífeyrissjóðunum hafði verið kynnt að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

Þórarinn V. Þórarinsson, hæstaréttarlögmaður og ráðgjafi lífeyrissjóðanna við kaupin segir þetta nokkuð undrunarefni. „Það hefur verið frá upphafi vitað út frá því gengið að eigendur Kaupþings myndu kaupa hlut," segir Þórarinn.

„Lengst af hefur verið talað um að sá hluti verði af stærðargráðunni 20 til 25 prósent. Þannig að umfangið kom okkur á óvart. Sérstaklega að það væri með þeim hætti að það gæti verið kaupréttur.“

Þórarinn segir að stýrihópur lífeyrissjóðanna fundi í dag þar sem endanlega verði metið hvaða skilaboð felist í þessari framkvæmd. Hann útilokar þó ekki áframhaldandi viðræður heldur endurmeti sjóðirnir nú stöðu sína.