Ekki grunaði Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, þegar hún ók ótal sinnum á unglingsaldri um Oddsskarð, einn hættulegasta fjallveg landsins, syngjandi hástöfum með Elly Vilhjálms í græjunum, að einn góðan veðurdag slægi hún í gegn í leikhúsheiminum í hlutverki þessarar ástsælu söngkonu. Hún hefur nú verið Elly á fjölum Borgarleikhússins í hálft annað ár og allt útlit fyrir að hún eigi eftir að syngja Heyr mína bæn alloft til viðbótar á stóra sviðinu.

Það er vitaskuld fátítt að nýútskrifaður leikari veki jafn mikla athygli í sínu fyrsta stóra hlutverki og Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur náð að gera, en að sama skapi fyrirtaks vitnisburður um hversu vel hefur tekist til með bæði leik og sýningu. Áhugi Katrínar Halldóru á leiklist kviknaði þegar móðir hennar vann í miðasölu Þjóðleikhússins.

„Hún dró okkur á allar sýningar, bæði barnasýningar og sýningar fyrir fullorðna, og ég ætlaði frá því að ég man fyrst eftir mér að verða leikkona. Það hefur alltaf verið planið. Ég reyndi samt að gera ýmislegt annað, fór í íslenskunám í Háskóla Íslands, starfaði á leikskóla, vann á veitingastað, fór í söngnám og fleira, en alltaf langaði mig að verða leikkona. Að lokum fór ég í leiklistarnám og var auðvitað komin á rétta staðinn eins og ég vissi frá upphafi.“

Hrein gleði að halda áfram

Hún segir Elly vera það besta sem hent gat hana sem nýútskrifaðan leikara. „Að fá að leika svona mikið er ótrúlega dýrmætt, að fá að gera þessari merkilegu persónu skil og ganga í gegnum allt þetta mikla tilfinningaferðalag er alveg magnað. Ég fæ heljarinnar kikk út úr því að leika hana, það er ekki hægt að orða það öðruvísi, og á meðan sú kennd endist er það ekkert nema hrein gleði að halda áfram. Það er sumpart erfitt að útskýra en það býr líka svo mikið hjarta í þessari sýningu að það kemur aldrei til greina að hún sjúskist eða missi sjarmann.“

Hún kveðst alltaf vera drjúga stund að vinda ofan af sér eftir sýningu, enda búin að fara í gegnum heila mannsævi á einu kvöldi, rjúka upp og niður tilfinningaskalann og synga ókjör af sígildum dægurlögum sem Elly gerði vinsæl. Samferð Katrínar Halldóru og Ellyjar Vilhjálms er í raun enn lengri en uppsetning sýningarinnar í Borgarleikhúsinu gefur til kynna, eða alveg frá námi hennar í leiklist í Listaháskóla Íslands.

„Ég gerði litla sýningu, hálftíma einleik, um Elly þegar ég var í leikaranáminu. Gísli Örn Garðarsson í Vesturporti var með svipaða hugmynd á sama tíma, ætlaði að gera sjónvarpsþáttinn Leitin að Elly og frétti þá af stelpu uppi í Listaháskóla sem hefði búið til sýningu um Elly og ákvað að kíkja á hana. Hann þurfti að hætta við þáttinn og úr varð leiksýning í fullri lengd sem hefur til allrar lukku fengið þessar frábæru viðtökur. Gísli Örn er svo dásamlegur listamaður og mikil fyrirmynd í lífi og listum, því hann er svo fylginn sjálfum sér. Við vinnum mjög vel saman og í hans höndum var auðvelt að búa til sýninguna.

Núna er hann meira að segja kominn inn í sýninguna að leika á móti mér og sýningin enn að stækka og við að uppgötva eitthvað nýtt. Eftir að ákveðið var að setja Elly upp á sínum tíma var það algjört leyndarmál að ég myndi leika Elly og í eitt og hálft ár mátti ég ekkert segja. Það var oft ansi erfitt að tala ekki af mér þegar fólk í kringum mig var að velta fyrir sér hver ætti að leika hana, en það tókst með herkjum,“ segir hún og brosir.

„Ég nýtti tímann vel í rannsóknarvinnu, las bók Margrétar Blöndal um Elly og skoðaði að ég held hvert einasta viðtal sem hún fór í um ævina. Hún var frekar dul og forðaðist frekar en hitt að ræða við fjölmiðla, en fór þó meðal annars í nokkur útvarpsviðtöl og ég fann þar tvö viðtöl sem sögðu eitthvað persónulegt um hana, gáfu mér betri innsýn og hjálpuðu til við persónusköpunina. Elly er alltaf nálægt mér og ég reyni að túlka hana sem manneskju en ekki bara persónu og vona svo sannarlega að það hafi tekist.“

Hvert augnablik fyllt töfrum

Núna nálgast 200. sýningin óðfluga. Ertu ekkert orðin leið á hlutverkinu?„Nei, ég er alls ekki orðin leið á Elly og sýningunni, langt í frá. Sumir horfa á mann vorkunnaraugum og virðast halda að þetta sé einhver áþján, en það er ástæðulaust því að ég skemmti mér konunglega og elska að það er alltaf allt í húfi á hverri sýningu.

Við erum núna á þriðja leikárinu og sýningin er alltaf að breytast aðeins og batna að mér finnst; þegar við byrjuðum aftur í haust eftir hálfs árs hlé fannst mér hún verða betri en nokkru sinni. Meðan á fríinu stendur þroskast sagan og persónurnar í meðförum leikaranna og hafi fólk séð hana í upphafi ætti það endilega að sjá hana núna aftur því að það hefur svo margt breyst. Hvert augnablik er orðið fyllt einhverjum töfrum.“

En er líf eftir Elly?

„Þetta er þvílík óskabyrjun að ætli allt liggi ekki niður á við þaðan í frá,“ segir Katrín Halldóra og hlær. „En spauglaust þá fer allt eins og það á að fara. Ég er ekki komin með aðskilnaðarkvíða þó að því fylgi vissulega súrsæt tilfinning að fyrr eða síðar þurfi ég að kveðja þessa vinkonu mína, því að sýningin er búin að vera svo mikið ævintýri og hópurinn sem stendur að sýningunni svo yndislegur.

Ég hef þó á tilfinningunni að Elly muni alltaf fylgja mér með einhverjum hætti og fólk muni tengja mig við hana og það er bara allt í góðu. Ég tek bara því sem að höndum ber og þegar maður er opinn fyrir tækifærunum koma þau oftast til manns. Mér finnst þetta ferðalag skemmtilegt.“

Nánar má lesa um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .