Hildur Eiríksdóttir starfar í einkabankaþjónustu hjá Kviku en henni þykir mest spennandi við starfið að eiga samskipti við viðskiptavinina og heyra sögu hvers og eins.

„Það eru nauðsynlegar upplýsingar til að geta sett upp eignasafn í samræmi við áhættuþol, framtíðarplön og fjárhagsstöðu viðkomandi. Síðan er sett saman eignarsafn úr hlutabréfum, skuldabréfum og lausafé í samræmi við fjárfestingarstefnu hvers og eins og í framhaldi af því erum við í reglulegum samskiptum,“ segir Hildur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er sérstaklega gaman að fá tækifæri til að fylgjast með fólki fara milli æviskeiða, eignast börn, endurnýja heimilið og loksins huga að lokum starfsævinnar. Mér finnst öll æviskeiðin hafa sinn sjarma og það eru í raun forréttindi að fá að vinna með fólki í gegnum þessi skeið og á sama tíma tíma fylgjast með mörkuðunum og vinna með tölur.“

Hildur fór í eitt ár á vegum Rótarýsamtakanna að lokinni útskrit úr MR til Bandaríkjanna. „Ég fór í lítinn háskóla í Georgíu í Bandaríkjunum sem heitir Valdosta State , það var ótrúlega góð reynsla,“ segir hún en þar lærði hún grunn að viðskiptafræði en eftir að hún kom heim fór hún í Háskólann í Reykjavík hvaðan hún útskrifaðist árið 2002. Einnig hefur hún klárað nám í verðbréfamiðlun.

Litla stelpan sem keypti spariskírteini

„Ég hef alltaf haft áhuga á markaðnum, en mín fyrsta minning tengd fjármálamörkuðum er að sem barn og unglingur var ég að vinna í leikhúsinu og fór alltaf með launin mín þaðan og keypti Spariskírteini ríkissjóðs. Í kjölfarið fór ég að fylgjast með mörkuðunum, mér verður oft hugsað til mín sem litlu stelpunar sem mætti þarna í bankann að kaupa bréfin. Ég sé í dag hvað ég var ung þegar ég fór að fylgjast með og það hefur sennilega hjálpað til hvað mér var vel tekið á sínum tíma í bankanum, að ég hef verið að vinna við eignastýringu og einkabankaþjónustu öll mín fullorðinsár,“ segir Hildur en reynsla hennar á sviði einkabankaþjónustu og eignastýringar er víðtæk.

Fyrst starfaði hún á sumrin og á annatímum hjá VÍB og Íslandsbanka, síðar fór hún út á vegum bankans og kom að uppsetningu einkabankaþjónustu á erlendri grund. „Ég held það sé ótrúlega dýrmæt reynsla að hafa haft tækifæri að starfa erlendis en líka gott að koma heim. Það er mér sérstök ánægja að hafa gengið til liðs við svona framsækið fyrirtæki eins og Kviku sem byggir á sama tíma á grunni eignarstýringar frá 1999,“ segir Hildur.

„Vinnan er kannski líka áhugamálið því ég hef gaman að því að lesa allt sem tengist fjármálamörkuðum og um skoðanir tengdar þeim, en þar fyrir utan finnst mér gaman að eyða tíma með fjölskyldunni. Við reynum að njóta þess að vera saman, vera úti og elda góðan mat, skiptast á skemmtilegum upplifunum og hlæja saman. Það eru forréttindi að finna starf sem sameinar það að fylgjast með mörkuðum og fréttum af líðandi stundu og á sama tíma fá að vinna með fólki og fara með því í gegnum þessi mismundi skeið sem ævin býður uppá,“ segir Hildur að lokum.