Ólafur Ólafsson, sem dæmdur var til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar í Al-Thani málinu, afplánar nú dóm sinn á Kvíabryggju. Ólafur er afar gagnrýninn á rannsókn málsins, málsmeðferðina fyrir dómi og niðurstöðu Hæstaréttar, sem hann segir hafa lítilsvirt mannréttindi hans og annarra sakborninga og látið almennings­ álitið stjórna niðurstöðu sinni.

Ólafur hóf afplánun dómsins fyrir rúmu hálfu ári síðan á Kvíabryggju þar sem blaðamaður heimsótti hann. Hann er afar ósáttur við dóm Hæstaréttar í málinu og segir hann hafa skrifað alfarið nýjan dóm og byggja á nýjum gögnum, sem ekki voru höfð til hliðsjónar í héraðsdómi. Úrlausn hans fáist ekki áfrýjuð og ekki sé hægt að leiðrétta mistök.

„Í þessum skrifum Hæstaréttar, þar sem hann fer yfir gögn málsins, gerir hann veigamikil mistök. Hann les vitlaust út úr samtali þar sem hann segir: Bingó! Maðurinn var inni í viðskiptunum alla tíð og vissi allt frá fyrstu hendi. Þessi maður var hins vegar Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, lögmaður og sérfræðingur í verðbréfamarkaðsrétti, en ekki ég, eins og fyrir lá ef dómskjöl úr meðferðinni í héraði eru skoðuð. Bjarnfreður hefur síðan staðfest það skriflega fyrir endurupptökunefnd að hann hafi ekki verið að ræða um mig,“ segir Ólafur.

Heldurðu að Hæstiréttur hafi látið almenningsálitið stjórna niðurstöðu sinni að einhverju leyti?

„Já, alveg klárlega. Bara það að dæma mann í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir markaðsmisnotkun er óþekkt í öllum þeim löndum sem hafa dæmt samkvæmt sams konar reglum. Þessi lög eru tilkomin vegna tilskipunar frá Evrópusambandinu og gilda í öllum aðildarlöndum. Þetta er fordæmalaus dómur. Algjörlega fordæmalaus. Ég fékk álit frá sex erlendum lögmönnum, og tveimur íslenskum, sem eru búnir að fara yfir þetta. Þeir telja að lög hafi ekki verið brotin. Auk þess er refsigleði Hæstaréttar óheyrð og á sér ekki hliðstæðu í sambærilegu máli annars staðar,“ segir hann.

Ólafur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .