*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 13. mars 2018 11:39

Afgangur Garðabæjar ríflega 1,2 milljarðar

Rekstrarafgangur Garðabæjar á síðasta ári var 122% meiri en ráð hafði verið fyrir gert. Peningarnir nýttir til framkvæmda.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Garðabær skilaði 1.153 milljóna króna rekstrarafgangi á síðasta ári, en áætlun bæjarins hafði gert ráð fyrir 520 milljóna króna afgangi. Það er aukning nærri 122% eða tvöföldun og ríflega fimmtungi meira en það miðað við upphaflega áætlun. 

Á sama tíma og tilkynnt er um þennan mikla rekstrarafgang er þó sagt að afgangurinn hafi verið nýttur til framkvæmda og uppbyggingar á innviðum bæjarins. Bærinn hafi á árinu einnig tekið 1.289 milljónir króna að láni, sem hafi samsvarað um 40% af kostnaði við framkvæmdir.

Íbúum fjölgaði tvöfalt meira en gert var ráð fyrir

Skýringin er rakin til þess að íbúum hafi fjölgað umfram áætlun, en í árslok 2017 voru 15.700 íbúar. Hafði þeim fjölgað um 3% frá fyrra ári, en einungis hafði verið gert ráð fyrir 1,5% fjölgun. 

Rekstur málaflokka er í mjög góðu samræmi við fjárhagsáætlun að því er segir í fréttatilkynningunni. Til marks um það er nefnt að samanlögð útgjöld þriggja stærstu málaflokkanna þ.e. félagsþjónustu, fræðslumála og æskulýðs- og íþróttamála 9.424 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 9.367 milljónir króna færi til þessara málaflokka og er frávik innan við 1%.

Skuldahlutfall er 85% og svokallað skuldaviðmið 69%. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 8% og fjárfesting nam 21% í hlutfalli við rekstrartekjur. Veltufjárhlutfall nemur 0,64 og eiginfjárhlutfall 57%.

Næstum 3 milljarðar í framkvæmdir

Bæjarfélagið setti rúmlega 2.940 milljónir króna í það sem kallaðar eru fjárfestingar og hefur sú upphæð aldrei verið meiri. Helstu framkvæmdir voru við íþróttamannvirki sem námu samtals um 1.082 milljónum króna, byggingarkostnaður Urriðaholtsskóla nam 650 milljónum króna, kaup  á Vífilsstaðalandi námu 559 milljónum króna auk gatnaframkvæmda og ýmissa annarra smærri framkvæmda. 

Sundlaugin við Ásgarð verður opnuð að nýju um miðjan apríl eftir gagngerar endurbætur  og þá mun leikskóladeild hefja starfsemi í Urriðaholtsskóla í byrjun apríl.

Í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er m.a. gert ráð fyrir að byggt verði fjölnota íþróttahús austan Reykjanesbrautar, viðbyggingu við Álftanesskóla, að lokið verði við byggingu íbúða fyrir fatlað fólk við Unnargrund, uppbyggingu bæjargarðs með íþróttaaðstöðu og göngu- og skokkstígum, að lokið verði við framkvæmdir á fjölnota fundarsal á bæjarskrifstofum og að útilífsmiðstöð verði byggð í samstarfi með Skátafélaginu Vífli. Auk þess sem áfram verður unnið að gatnagerð og endurnýjun lagna og gangstétta í eldri hverfum bæjarins.