Afgangur á rekstri Landspítalans nam tæpum 4,8 milljónum króna í fyrra, samanborið við 70,8 milljóna króna afgang árið á undan. Framlag ríkisins til rekstrar nam 34,5 milljörðum króna en var 33,1 milljarður árið 2010. Útgjöld spítalans árið 2011 námu 38,2 milljörðum króna, en voru 36,5 milljarðar árið á undan.

Laun og launatengd gjöld jukust um 1,6 milljarð króna milli ára þrátt fyrir að stöðugildum og starfsfólki hafi fækkað. Nam þessi liður 27,1 milljarði í fyrra en 25,5 milljörðum árið á undan. Meðalfjöldi stöðugilda á spítalanum nam 3.641 árið 2011, en nam 3.648 árið á undan. Fjöldi starfsmanna í upphafi árs 2011 nam 4.590 en nam 4.779 í ársbyrjun 2010.