Krónan varð fyrsta verslunin hér á landi til að koma með sjálfsafgreiðslukassa, reyndar fyrir um 12 árum, en hætt var við þá tilraun. Síðan var þráðurinn tekin upp á ný síðasta vor. Spurð af hverju Krónan hafi verið fyrst matvöruverslana til að taka upp sjálfsafgreiðslukassa rekur Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar það til þess að það einkenni fyrirtækið að þora að taka af skarið.

Gréta María var í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins , en þar ræddi hún m.a. um netverslun fyrirtækisins sem komið verður á laggirnar í ár, lausnir til að sækja vörur í bæði verslanir Krónunnar og mögulega stöðvar N1, en einnig vonir fyrirtækisins til að geta verið með verslanir Krónunnar og bensínstöðvar N1 á sama stað. Yrði fyrsta slíka samþætting á starfsemi Fasti á einum stað í Norðlingaholti.

„Við vitum að matvöruverslanir eins og þær eru í dag, verða ekki svona eftir fimm eða tíu ár, það munu verða breytingar og ætlum við að vera í fararbroddi í þeim. Ég sé til dæmis fyrir mér að það verði ekki langt í það að maður verði sjálfur farinn að skanna ofan í körfuna. Sjáðu til dæmis nýju Amazon búðirnar þar sem myndavélatæknin veit allt sem þú tókst ofan í körfuna og þú labbar bara beint út, en færð rukkunina fyrir vörunum í símann þinn eða á greiðslukortið þitt,“ segir Gréta María.

„Þessi tækni er kannski ekki alveg komin á þann stað að hún sé aðgengileg til innleiðingar, en þó það verði ekki á næstu árum, held ég að eftir tvö til þrjú ár getum við tekið milliskref þar sem fólk noti Krónuappið til að skanna þær vörur sem það hyggst kaupa, það ætti ekki að vera mikið mál. Síðan myndum við vera með handahófseftirlit.

Kosturinn við sjálfsafgreiðslukassana eins og þeir eru í dag, er að við erum að bjóða viðskiptavinum aukna þjónustu með hraðari afgreiðslu ef þeir eru til dæmis einungis að sækja nokkra hluti. Við erum oft spurð hvort þessu fylgi ekki hagræðing, en við erum ekki að gera ráð fyrir slíku, enda alltaf starfsmaður yfir kössunum og mikil fjárfesting í hverjum kassa.“

Geta sett viðvaranir og innihaldsupplýsingar í appið

Líklegt má telja að fólk muni koma minna í búðir í framtíðinni með aukinni netverslun en Gréta María sér tækifæri í því samt sem áður. „Búðirnar eru okkar stærsti miðill og við viljum segja  viðskiptavinum frá því sem er í boði svo þegar viðskiptavinir koma þá verður það til að leita að nýjungum og fræðslu. Við munum bjóða viðskiptavinum betri upplýsingar um vörur, hvað þær innihalda, hvaðan þær koma og hvort þær henti í ákveðna tegund mataræðis,“ segir Gréta María.

„Tökum sem dæmi hvort þessi eða hin varan sé ketóvæn, eða glútenlaus, það er alltaf eitthvað. Núna er það keto sem er aðalmálið og eftir tvö ár verður eitthvað annað, en stefnan er að þær upplýsingar verði í boði í krónuappinu, því við ætlum að hjálpað þér að vera upplýstari neytandi. Þetta getur líka nýst þeim sem eru með ofnæmi, þeir gætu meðal annars fengið með þessari nýju tækni viðvörun í appið ef þeir kaupa vöru sem innihalda ofnæmisvalda sem þeir hafa skráð.“ Gréta María segir stefnuna vera að fólk geti komið í verslanir Krónunnar til að fá einfaldar lausnir í matinn, sem ekki þurfi að kosta mikið.

„Það hefur þegar gengið vel að bjóða upp á nýjungar inni í stóru verslununum, eins og með samstarfinu við Tokyo Sushi og Rotissier, og ætlum við okkur að fá fleiri samstarfsaðila í framtíðinni. Við reynum að staðsetja slíkar fljótar lausnir fyrir til dæmis hádegismatinn þannig að fólk geti bara gripið þetta án þess að þurfa að fara í gegnum alla búðina.

Því þó það sé auðvitað jákvætt að fólk grípi eitthvað meira en það ætlaði sér fyrst, þá erum við ekkert að reyna að plata viðskiptavininn til þess að kaupa eitthvað sem hann vill ekki,“ segir Gréta María sem jafnframt bendir á að Krónan hafi nú í nokkurn tíma einnig boðið upp á þægilegar lausnir í kvöldmatinn fyrir fjölskylduna.

Vilja svara erfiðustu spurningu dagsins

„Við erum að einblína á tilbúnar lausnir, til dæmis bjóðum við upp á það sem við köllum Korter í fjögur, sem er svarið við erfiðustu spurningu dagsins fyrir marga, þegar makinn hringir og spyr hvað eigi að vera í matinn um kvöldið. Með þessu bjóðum við upp á uppskriftir til að gefa fólki hugmyndir um hvað eigi að vera í matinn, og síðan erum við búin að stilla öllum hráefnunum sem þarf í þessa máltíð upp saman á þægilegum stað í búðunum. Við bjóðum upp á tvær svona uppskriftir í viku í stóru búðunum, en eina í þeim minni, og svo skiptum við.

Síðan erum við að þróa útfærslu sem kannski má segja að sé svona milliskref í átt að því sem Eldum rétt og aðrir slíkir eru að bjóða, en þá muntu geta valið hver próteingjafinn verður, meðlætið og sósan. Í staðinn fyrir að þurfa að kaupa stórar pakkningar af því, til dæmis fjórar kjúklingabringur, verður einnig hægt að kaupa minni skammta, sem dugir þá fyrir einn eða tvo.“

Vilja breyta samfélaginu

Að sögn Grétu Maríu snúast umhverfismál fyrirtækisins ekkert bara um að slá um sig með einhverri jákvæðri ímynd og fylgja tískunni í þessum efnum. „Umhverfismálin eru dauðans alvara og ég get bara sagt, að ástríðan í starfsfólkinu hér er einstök. Þetta fólk er svo sannarlega að reyna að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þó að við séum að reka matvöruverslanir, þá trúum við því að við getum breytt samfélaginu sem við lifum í og það er mikil ábyrgð sem hvílir á okkur sem eitt stærsta fyrirtækið á matvælamarkaði,“ segir Gréta María og nefnir í þessu samhengi baráttu fyrirtækisins við matarsóun, en eins og þekkt er þá fer mjög mikið af mat til spillis þegar hann fer fram yfir síðasta söludag í matvöruverslunum.

„Þetta er oft alls ekki ónýtur matur, það sem við erum að gera mun markvissara en áður er að selja vöruna með afslætti áður en hún rennur út. Ég myndi segja að við séum algerlega í fararbroddi í að minnka matarsóun, en við byrjuðum á þessu að hluta til fyrir tveimur árum, en höfum síðan farið í að þróa kerfi sem auðveldar verslunum að taka ákvörðun um hvaða ferli varan fer í svo ekki þurfi að henda henni þrátt fyrir að umbúðir sé skemmdar eða varan nálgast það að renna út.

Áður skelltum við afsláttarmiðum á svona vörur, en þá fylgdu engar upplýsingar inn í birgðakerfið hvaða vara það var sem seldist á afslætti. Núna veit kerfið hvaða vörur það eru sem seljast með afslætti, það fer inn í birgðabókhaldið og við eigum öll gögn um það. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá framleiðendum sem vilja taka þátt í þessu með okkur en það er misjafnt eftir samningum hvort það séum við eða þeir sem bera kostnaðinn ef varan selst ekki.

Það skiptir okkur ekki máli hvorir henda matnum, markmið okkar er að henda engum mat, og þó það sé langtímamarkmið sjáum við að við erum á réttri leið, þessar vörur klárast alltaf. Þetta veldur því að óflokkað sorp hjá okkur er að dragast mikið saman. Á endanum verður nýting þessara gagna til að taka betri ákvarðanir um hve mikið er keypt inn, vonandi til þess að það skapist meira jafnvægi milli þess sem er framleitt og þess sem er neytt.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .