Stærsta leigufélag landsins, Heimavellir, afhendir í dag síðustu leiguíbúðirnar í Bryggjuhverfinu í Reykjavík, en íbúðunum hefur verið úthlutað í áföngum undanfarið ár. Um er að ræða samtals 133 íbúðir í langtímaleigu í sex fjölbýlishúsum á Tangabryggju (2-4, 6-8, 10 og 12).

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur og leigumarkaðinn, enda er þetta stærsta nýbyggingarverkefnið sem við höfum fjárfest í,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, í samtali við Viðskiptablaðið. ÞG Verk er verktaki húsanna og arkitekt þeirra er Björn Ólafs í París. Guðbrandur segir heildarfjárhæð fjárfestingarinnar vera trúnaðarmál.

„Frá stofnun höfum við byggt upp Heimavelli með sameiningum á leigufélögum sem fyrir voru á markaði. Við verðum með ríflega 1.900 íbúðir í útleigu í lok þessa árs og langstærsti hlutinn af þeim íbúðum hefur verið lengi í leigu. En núna höfum við verið að fara inn á markaðinn og byggja upp hagkvæmar leiguíbúðir í langtímaleigu til að mæta húsnæðisþörfinni á markaðnum,“ segir Guðbrandur.

Með nýbyggingum eru Heimavellir að létta af verðþrýstingi á fasteignamarkaðnum, að sögn Guðbrands.

„Þetta eru hagkvæmar íbúðir fyrir einstaklinga og fjölskyldur í öruggri langtímaleigu að fyrirmynd Norðurlandanna. ÞG Verk veitti okkur tækifæri að byggja við Tangabryggjuna þar sem Elliðaárvogurinn er framtíð­aruppbyggingarsvæði í Reykjavík. Uppbyggingin í Bryggjuhverfinu tengist þannig fyrirhugaðri íbúðabyggð á Höfðanum, vestur eftir voginum og að Vogabyggð.“

Fleiri verkefni í burðarliðnum

Heimavellir hafa verið að bæta við íbúðum á fleiri stöðum á suðvesturhorninu, en einnig er félagið með fleiri nýbyggingarverkefni í burðarliðnum.

„Við höfum farið með 105 nýjar íbúðir inn á leigumarkaðinn í fjórum fjölbýlishúsum í Helgafellslandi í Mosfellsbæ. Í Ásbrú í Reykjanesbæ höfum við bætt við íbúðum með því að breyta svokölluðum setustofum í stúdíóíbúðir, en þar er mikil íbúðaþörf. Í Hafnarfirði erum við með eina blokk í byggingu á Völlunum. Í Reykjavík erum við með íbúðir í byggingu í Jaðarleiti 8 fyrir framan Ríkisútvarpið, en þær verða afhentar í lok næsta árs. Svo erum við með önnur verkefni sem eru langt komin og munum við geta sagt frá þeim fljótlega,“ segir Guðbrandur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .