Afhendingaröryggi Landsnets til almennra notenda er misjafnt eftir landshlutum. Í mörg ár hefur ​afhendingaröryggið verið lakast á Vestfjörðum. Þar voru straumleysismínútur að meðaltali um 164 á ári, síðustu 5 árin. Straumleysismínútunum hefur fækkað fyrir vestan með tilkomu varaaflsstöðvarinnar í Bolungarvík og snjallnetsins á Vestfjörðum, sem eru að jafnaði að bregðast við um 90 sekúndum eftir að truflun á sér stað. Eftir sem áður er afhendingaröryggi enn lakast á Vestfjörðum. Landsnet greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Skýrsla um flutningskerfið á Vestfjörðum

Í dag kom út skýrsla um flutningskerfið á Vestfjörðum með greiningu á afhendingarörygginu á svæðinu. Þar er rætt um þrjár leiðir til úrbóta, hringtengingu innan svæðisins, snjallvaraaflstöðvar og aukið virkjunarafl.

Í skýrslunni er möguleikinn á að reisa snjallvaraaflstöð á sunnanverðum Vestfjörðum skoðaður en það mundi bæta verulega afhendingaröryggið á Keldeyri og Mjólká en hefur hvorki áhrif á aðra afhendingarstaði á Vestfjörðum né á Vesturlínu. Hringtengingarnar innan Vestfjarða, bæði minni og stærri hringur, hafa báðar mikil áhrif á Keldeyri en á öðrum afhendingarstöðum eru áhrifin minni.  Áhrif mögulegrar nýrrar virkjunar á svæðinu voru skoðuð með mögulegum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi og með tengingu þaðan í Kollafjörð á Barðaströnd. Tengipunktur í Ísafjarðardjúpi gefur líka möguleika til frekari styrkinga í flutningskerfinu á norðanverðum Vestfjörðum og möguleika á tengingu um Hólmavík til Geiradals sem liður í tvöföldun tengingar til Vestfjarða, en auk þess gæti hann tengst dreifikerfi raforku í Ísafjarðardjúpi.

Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets segir að allir kostirnir hafi jákvæð áhrif inn á svæðið

„ Þegar horft er á Vestfirði sem heild þá hafa þessar útfærslur sem fram koma í skýrslunni mismikil áhrif á afhendingaröryggi á svæðinu en allar hafa þær jákvæð áhrif til lengri tíma. Hvort sem um hringtengingu innan svæðisins verður að ræða, nýjar snjallvaraaflstöðvar eða nýtt eða aukið virkjunarafl. Þó þarf að hafa í huga að á Vestfjörðum eru sex afhendingarstaðir og hafa útfærslurnar mismikil áhrif á afhendingaröryggið á hverjum stað.“