Ríkisfyrirtækið Isavia ohf., sem sér um rekstur flugvalla á Íslandi, þar á meðal Keflavíkurflugvöll, hagnaðist um 3,9 milljarða króna á síðasta ári. Það er nálega 43% samdráttur frá fyrra ári en hagnaður félagsins dróst saman um 3 milljarða árið 2017 miðað við árið 2016.Samkvæmt tilkynningu félagsins í tilefni af aðalfundi sem haldinn var í gær, var rekstrarafkoma þess í samræmi við áætlanir.

Tekjur félagsins námu 38 milljörðum króna sem er 15% aukning á milli ára. Stærsti hluti tekna er tilkominn vegna sölu á þjónustu.
Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 28% milli ára, og töldu þeir um 8, 8 milljónir manns, en flugvélum sem fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið fjölgaði um 12% og innanlandsfarþegum um 3%.

Af 14,4 milljarða fjárfestingum fóru 13,1 milljarður í Keflavíkurflugvöll

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 9,9 milljörðum króna og jókst um 11% á milli ára. Heildarafkoma nam 3,9 milljörðum króna og lækkaði um 3,0 milljarða króna frá fyrra ári. Á sama tíma nema neikvæð áhrif vegna breytinga á gengismun um 3,6 milljörðum króna sem er að mestu tilkominn vegna fjármögnunar í erlendum gjaldmiðlum. Arðsemi eiginfjár var 13,6%.

Heildareignir samstæðunnar námu 72,5 milljörðum króna í árslok 2017 og jukust um 13,3 milljarða króna milli ára. Þar af eru 59,7 milljarðar tilkomnir vegna varanlegra rekstrarfjármuna og óefnislegra eigna. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 14,4 milljörðum króna og þar af eru um 13,1 milljarður vegna Keflavíkurflugvallar.

Staða eigin fjár hækkaði um 3,9 milljarða króna milli ára sem skilaði um 42,7% eiginfjárhlutfalli sem er lækkun frá síðasta ári en þó ríflegt miðað við þá starfsemi sem félagið er í. Í lok árs 2017 störfuðu 1.202 starfsmenn hjá móðurfélagi Isavia. Á sama tíma störfuðu 313 hjá dótturfélögum, 221 hjá Fríhöfninni og 46 hjá Tern Systems.

Kostnaður við framkvæmdir 30 milljarðar á 3 árum

Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Isavia, sagði á fundinum að 1. febrúar síðastliðinn hefði stjórnin samþykkt að leggja þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll, svonefnt Masterplan, til grundvallar allri uppbyggingu á vellinum.

„Og var jafnframt því samþykkt að hefja hönnun á fyrstu verkþáttum uppbyggingaráætlunar til ársins 2025. Þar er gert ráð fyrir því að á árinu 2018 verði boðin út bygging fyrir nýja farangursflokkunar- og skimunarstöð austur við norðurbyggingu flugstöðvarinnar, sem áætlað er að verði tilbúin 2020,“ sagði Ingimundur.

„Einnig er áformað að bjóða út á þessu ári framkvæmdir við áframhaldandi breikkun tengibyggingar og nýtt landamæraeftirlit norðan við núverandi flugstöðvarbyggingu, sem áætlað er að verði tilbúin í árslok 2021. Alls nemur kostnaður við þessa tvo framkvæmdaþætti ríflega 30 milljörðum króna á næstu þremur árum.“

Segir vanta fjármögnun fyrir aðra flugvelli

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sagði árið 2017 hafa verið viðburðaríkt hjá fyrirtækinu og mætti tengja mikinn vöxt Isavia við aukningu millilandaflugs eins og fyrri ár.

„Ísland er nú orðinn heilsársáfangastaður og erum við sérstaklega stolt af þátttöku Keflavíkurflugvallar í því verkefni en sá árangur er afrakstur góðrar samvinnu flugvallarins, verktaka á flugvellinum og flugfélaganna auk ferðaþjónustunnar á Íslandi. Við höfum fjölgað starfsfólki til að takast á við aukna umferð um flugvöllinn og er það okkar góða fólki að þakka hversu vel hefur gengið,“ segir Björn Óli.

„En rétt er að benda á að fyrirbyggjandi viðhaldi á innanlandsflugvöllunum hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Það er vegna þess að vantað hefur upp á fjármögnun á þjónustusamningum íslenska ríkisins við Isavia um rekstur vallanna.“

Ríkið leggi til enn meira fé

Í ræðu sinni á fundinum sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að góðar samgöngur væru forsenda atvinnugreina og blómlegs mannlífs. Hann sagði að örðugt hafi reynst að tryggja rekstrargrundvöll flugvallarkerfisins innanlands. Viðhald og nýframkvæmdir hafi seti á hakanum og lendingarstöðum lokað.

Uppsöfnuð þörf fyrir viðhald innanlandsflugvalla næmi um 7-8 milljörðum króna með nauðsynlegri endurnýjun flugbrauta og flughlaða. „Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að samkvæmt fjármálaáætlun verður meira fjármagni veitt til viðhalds flugvalla en hefur verið gert á síðustu árum,“ sagði samgönguráðherra.

Aðalfundur samþykkti nýja stjórn

Á aðalfundinum var einnig samþykkt ný stjórn félagsins.

Aðalstjórn Isavia ohf. skipa þau:

  • Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts
  • Eva Pandora Baldursdóttir
  • Matthías Páll Imsland
  • Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir
  • Valdimar Halldórsson.

Varastjórn skipa þau:

  • Sigrún Traustadóttir
  • Björg Eva Erlendsdóttir
  • Hreiðar Eiríksson
  • Ingveldur Sæmundsdóttir
  • Reynir Þór Guðmundsson.