Afkoma Strætó bs. var jákvæð um 179,7 milljónir árið 2016, en hún var jákvæð um 22,8 milljónir árið áður, samkvæmt ársreikningi sem var samþykktur af stjórn Strætó. Rekstrarafkoman var því 156 milljónum króna hærri en árið á undan.

Fargjaldatekjur Strætó námu 1.820 milljónum króna samanborið við 1.655 milljónir króna árið áður. Þær hækkuðu því um 10% milli ára. Rekstrartekjur Strætó námu 7.477 milljónir króna samanborið við 6.943 milljónir árið áður. Rekstrargjöld Strætó bs. námu 7.117 milljónum króna samanborið við 6.749 milljónir króna árið áður.

Ráðist var í um 300 milljónir króna fjárfestingu á fjórum rafmagnsvögnum og búnaði tengdum þeim sem koma til landsins í júní. Jafnframt er fyrirhugað að fjárfesta fyrir um 300 milljónir króna í kaup á nýjum vögnum árið 2017. Handbært fé Strætó bs. hækkaði um 393 milljónir króna á árinu og var 907 milljónir króna í lok árs 2017.

Eignir Strætó bs. námu 2.862 milljónum í lok árs 2016 samanborið við 2.667 milljónum í lok árs 2015. Eigið fé Strætó nam 1.886 milljónum í árslok 2016 samanborið við 1.706 milljónum árið áður. Skuldir og skuldbindingar félagsins námu 976 milljónum króna í lok árs 2016.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., er ánægður með þann árangur sem náðist árið 2016. „Þetta er uppskera þeirra aðgerða sem við fórum í. Við skárum niður um rúmar 250 milljónir og þurftum að velta við hverjum steini og finna leiðir til að nýta fjármagnið betur“ segir Jóhannes. „Við erum einbeitt að því markmiði að gera betur og einfalda þjónustu okkar. Árið 2017 snýst um að halda áfram þeirri vinnu sem við lögðum grunninn að á síðasta ári og huga að framtíðarsýn okkar. Við munum halda áfram að þróa rafrænar lausnir og að nýta okkur þá tækni sem við höfum fjárfest í til þess að slípa verklag og einfalda þjónustu fyrir farþega Strætó,“ er haft eftir honum í tilkynningu.