Allir þekkja að staðsetning skiptir öllu máli þegar kemur að verðmæti fasteigna. Sama á við um vínframleiðslu og hvergi er staðsetning eins mikilvæg og í Búrgúndí héraði. Rauðvín og hvítvín eru gæðaflokkuð með sama hætti í Búrgúndí. Fyrsta stig er svokallað. „Bourgogne“ vín þar sem uppruni þarf ekki að vera af tiltekinni ekru. Því næst kemur 1er Cru (fyrsti flokkur) og efst trónir Grand Cru eða úrvalsdeildin sem telur tæplega 5% af heildarframleiðslu svæðisins. Frá fornu fari hafa vínbændur og drykkfelldir munkar reitað niður hin ýmsu svæði, að mestu eftir jarðvegi en einnig afstöðu gagnvart sólu, skjóli frá vind o.s.frv. sem saman myndar hugtakið „terroir“ sem vínfólki er afar hugleikið.

Bestu (og dýrustu) hvítvín heims koma úr Chardonnay ekrum úr miðhluta Búrgúndí héraðs. Nyrst er hvítvínssvæðið Chablis sem gefur af sér steinefnarík vín og syðst Macon (Pouilly- Fuisse) þar sem hlýrra loftslag gefur oft ávaxtaríkari vín. Í miðhlutanum eru svo bestu ekrurnar umhverfis bæina Puligny, Chassagne og Meursault (upphaflega Muris Saltus eða músarstökk). Engin af þeim ekrum sem tilheyra Meursault er flokkuð Grand Cru en markaðurinn hefur engu að síður síðasta orðið og hafa bestu spildurnar eins og t.d. Perriéres hækkað gríðarlega í verði á undanförnum árum.

Perriéres eða steinahlíð liggur að Puligny Montrachet og dregur nafn sitt af nálægri steinnámu en reyndar er hún einnig nokkuð grýtt eins og oft vill verða. Oftar en ekki er vínviðurinn 50-100 ára sem hefur rótað sig djúpt í margbreytileg jarðlög. Svo gamall vínviður gefur af sér minni uppskeru en bragðmeiri þar sem steinefni sem ræturnar skila, dreifast á færri ber. Oft er erfitt að greina eiginleg staðareinkenni í vínum sem ættuð eru úr hinum mismunandi bæjum en í öllu falli eru eftirsóttustu einkenni Meursault vína smjörkennd fita og hnetur, sér í lagi þegar vínin hafa náð fullum þroska með 5-10 ára geymslu. Fyrir liggur tillaga um að upphefja Perriéres í Grand Cru en slíkar breytingar eru afar fátíðar.

Nánar er fjallað um málið í áramótatímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .