Fróðlegt er að kynna sér niðurstöður í könnun Reutersstofnunarinnar í Oxford, á því hvaða tekjupósta netmiðlar ætla að leggja mesta áherslu á þetta árið. Segja má að það skiptist í tvo flokka, eins og sjá má að ofan, annars vegar tekjur tengdar eiginlegri efnismiðlun og hins vegar aukabúgreinar og betl.

Mesta áherslu ætla menn að leggja á beinar greiðslur lesenda, yfirleitt með áskriftum, sem er talsverð breyting frá fyrri árum. En það er líka athyglisvert hvað þeir ætla margir að ná inn aurum með ræmum, bæði á eigin vegum og um veitur eins og YouTube.

Ýmiss konar viðburðir, eins og ráðstefnur og tónleikar, ryðja sér einnig til rúms, en selt kynningarefni dalar aðeins frá fyrri árum. Trú manna á fjársöfnunum hefur hins vegar minnkað mikið.