Einungis þremur mánuðum eftir afnám fjármagnshafta hefur fjárfesting erlendra aðila á íslenskum hlutabréfamarkaði aukist umtalsvert. Einn af þessum erlendu aðilum er eignastýringarrisinn Eaton Vance, sem var í raun fyrsti erlendi fjárfestirinn til að láta sjá sig á íslenskum hlutabréfamarkaði eftir hrun í gegnum sjóðinn Global Macro Portfolio. Eaton Vance hefur stóraukið við sig af íslenskum hlutabréfum undanfarið.

Global Macro Portfolio birtist meðal 20 stærstu hluthafa HB Granda í nóvember 2015. Samkvæmt heimildum DV á þeim tíma hafði Eaton Vance einnig byrjað að fjárfesta í öðrum skráðum félögum, þó án þess að vera á topp 20 listum yfir hluthafa, en næst birtist hann á hluthafalista Eimskips í janúar 2016.

Framan af ári 2016 lét Eaton Vance sér nægja að vera meðal stærstu hluthafa HB Granda og Eimskips í gegnum sjóðina Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage Portfolio. Í júní 2016 bættist fasteignafélagið Reitir í safnið, mánuði síðar Hagar og í nóvember höfðu Icelandair Group, Síminn og Reginn bæst í hópinn. Sjóðurinn fór frá því að eiga einungis hlutabréf í HB Granda fyrir 418 milljónir króna í ársbyrjun 2016 yfir í að eiga tæpa 7,8 milljarða í sjö skráðum félögum í byrjun þessa árs, ef einungis er horft á lista yfir stærstu hluthafa hvers félags.

Þann 1. mars síðastliðinn, skömmu fyrir afnám hafta, nam þessi fjárhæð 8 milljörðum króna. Í dag eiga sjóðir á vegum Eaton Vance hlutafé í íslenskum félögum fyrir að minnsta kosti 15 milljarða króna í níu félögum. Það er nærri tvöföldun frá afnámi hafta og þá er ekki meðtalinn mögulegur hlutur þeirra í Icelandair, sem gæti hæglega numið hundruðum milljóna króna eða meira.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.