Fjárfestingasjóðir á vegum sjóðstýringafyrirtækisins Eaton Vance hafa aukið við fjárfestingar sínar í skráðum félögum í Kauphöll Íslands á síðustu vikum en fyrirtækið er meðal stærstu eigenda aflandskróna.

Ætla ekki að taka þátt í gjaldeyrisútboði

Eru sjóðir þeirra nú í hópi allra stærstu hluthafa Eimskipa, HB Granda og Reitis fasteignafélags með eignir með samanlagt markaðsvirði nálega þremur milljörðum króna, samkvæmt frétt DV . Fulltrúar fyrirtækisins hafa sagt að það ætli ekki að taka þátt í væntanlegu lokaútboði Seðlabankans á gjaldeyri fyrir aflandskrónur og gagnrýna þeir frumvarp fjármálaráðherra um meðferð aflandskrónueigna um að ganga of langt í skerðingu eignaréttar.

Fyrirtækið þyrfti að losa eignir úr landi með miklum afföllum miðað við skráð gengi krónunnar ef það tekur ekki þátt í útboðinu, en annars þurfa eignir keyptar fyrir aflandskrónur að vera geymdar á vörslureikningum Seðlabankans.

Veðja á krónuna

Sjóðir á vegum fyrirtækisins hafa einnig fjárfest mikið í íslenskum ríkisskuldabréfum en þær hafa verið gerðar í gegnum nýfjárfestingaleið Seðlabankans. Hafa erlendir fjárfestingarsjóðir komið með samtals um 80 milljarða króna til landsins á síðustu tólf mánuðum, en fjárfestingar þeirra með hlutabréf námu um 5,7 milljörðum á seinni helming síðasta árs.

Virðast sjóðir fyrirtækisins vera að taka stöðu með krónunni en í gögnum eins af sjóðum fyrirtækisins, Global Macro Absolute Return Advantage kemur fram að hann hafi aukið við gnóttstöðu sína í krónum gagnvart evru vegna væntinga um að brátt losni um fjármagnshöftin, en 4,75% af tæplega 540 milljarða hreinni eign sjóðsins er í krónum.