Rannsóknaverkefni sem staðið hefur yfir frá árinu 2013 á vegum norsku hafrannsóknastofnunarinnar hefur leitt til hönnunar á nokkrum útfærslum á snurvoðum. Útfærslurnar miða meðal annars að því að draga úr magni fisks sem kemur í pokann og að flokka aflann eftir tegundum með netþili. Íslendingurinn Ólafur Ingólfsson hefur stýrt rannsóknaverkefninu sem vakið hefur mikla athygli innan sjávarútvegsgeirans.

[email protected]

Norðmenn hafa búið við það lúxusvandamál að fiskgegnd hefur verið með allra mesta móti. Þar, eins og víðar, hefur áherslan verið á að auka gæði afurðanna og þar með verðmætanna á kostnað magnsins. Hópurinn sem Ólafur hefur stýrt hefur í raun þróað fjórar nýjar útfærslur snurvoða í samstarfi við aðila innan greinarinnar, jafnt veiðarfæraframleiðendur og útgerðir.

Ólafur  lærði netagerð hjá Netagerð Vestfjarða og sjávarútvegsfræðivið  Háskólann á Akureyri. Hann er sá fyrsti sem lauk meistaranámi í þeim fræðum þaðan. Hann hélt utan til Noregs í nám árið 2000. Doktorsverkefnið fjallaði um kjörhæfni og lífslíkur fiska sem sleppa frá veiðarfærum. Hann sneri aftur til Íslands árið 2006 og starfaði hjá Hafrannsóknastofnuninni allt til ársins 2013 þegar hann réði sig til starfa hjá systurstofnuninni í Noregi. Þar tók hann meðal annars að sér stýringu á rannsóknaverkefninu.

Aflatakmörkun snurvoðar

Ekki er um nýjar gerðir snurvoða að ræða heldur mismunandi útfærslur í hönnun þeirra. Stærsti hluti verkefnisins laut að aflatakmörkun snurvoðar.

„Fiskgegnd hefur verið mikil og það eru skráð höl í afladagbækur sem eru yfir 100 tonn. 40-70 tonna höl eru ekki óalgeng. Það er erfitt að hafa stjórn á magninu í snurvoð því menn hætta ekki í miðju hali“, segir Ólafur.

Óvenjumikil fiskgegnd hefur verið á miðunum norður af Lófoten og jafnvel allt austur eftir Finnmörku. Um er að ræða hrygningarþorsk sem er í miklu magni eftir allri ströndinni. Þessi mikla veiði er ekki bundin við snurvoðarbáta heldur hefur verið mikill afli í öll veiðarfæri.

Ólafur segir stærri bátana ráða vel við stór höl að því gefnu að pokinn slitni ekki. En hætta er á að hráefnið verði ekki upp á marga fiska sé aflinn ekki blæddur innan skikkanlegs tíma. Sumir af stærri bátunum veiði í áframeldi á þorski. Um leið og aflinn er orðinn meira en 10-12 tonn í hali sé erfitt að halda fisknum lifandi.

Rifur fyrir sleppingar

„Það hafa verið meiri vandræði hjá minni bátunum sem sumir hverjir hafa lent í því að kranar brotna og blakkir slitna niður, oft hefur legið við slysum á sjómönnum. Nokkrum sinnum hefur legið við að minni bátar hafi farið niður með pokanum“, segir Ólafur.

Þetta meðal annars varð til þess að Fiskistofa þeirra Norðmanna skipaði starfshóp til þess að finna lausn á þessum vanda. Í framhaldinu var stofnað til rannsóknaverkefnisins innan Hafrannsóknastofnunar Noregs.

„Okkar lausn felst meðal annars í því að skera tvær tveggja metra langar rifur í hólk fyrir framan pokann. Rifurnar eru lokaðar þegar verið er að veiðum og afli er takmarkaður. Það sleppur því ekki fiskur í dreiffiskiríi. En um leið og pokinn fyllist og þenst út opnast rifurnar þannig að hólkurinn verður nokkurs konar yfirfallsventill. Fiskurinn fer út og megnið af þorsk og ýsu lifir það af. Við vorum líka í samstarfi við norsk tæknifyrirtæki um hönnun á pokaopnara sem er á stærð við aflanema, og opnar pokann á leið upp. Við höfum stillt opnunina á 30 metra dýpi en opnunin er þó stillanleg. Við þetta eykst rýmið í pokanum, fiskurinn lifir betur og það verður léttara að tæma pokann. Auk þess færist fiskurinn frá rifunum og aftar í pokann, sem aftur minnkar líkur á að fiskur fljóti út um rifurnar í yfirborðinu”, segir Ólafur.

Þessi útfærsla snurvoðar er komin inn í norskar reglugerðir. Hún var fyrst prófuð árið 2014 og skömmu síðar voru um 100 bátar farnir að nota hana. Mestur er áhuginn meðal þeirra sem veiða í áframeldi.

Flokkari neðansjávar

Annað verkefni sem hópurinn vann að var hönnun snurvoðar sem aðskilur þorsk og ýsu í veiðum.

“Þetta hefur verið gert áður, bæði í snurvoð og troll. Okkar aðferð er sú að setja netþil í miðja snurvoðina þannig að hún verði á tveimur hæðum. Atferli ýsu og þorsks er ólíkt að því leyti að þorskurinn heldur sig neðar í veiðarfærinu meðan ýsan leitar upp. Hugsunin er sú að þegar kvótastaða í aðra hvora tegundina er lítil geta menn sótt í þá tegund sem þeir eiga kvóta fyrir. Þetta hentar einnig fyrir áframeldi á þorski því menn vilja síður fá ýsu með. Flokkunin með þessu móti lánast80-90%”.

Þriðja verkefnið fólst í hönnun á kolasnurvoð. Voðin er ekki nema hnéhá og sleikir botninn þannig að 90-95% af þorski og ýsu fer yfir hana en jafn mikið aflast af kola og í hefðbundnari snurvoð. Snurvoðarbátum hefur ekki verið leyft að veiða á friðunarsvæðum í innfjörðum þar sem innfjarðarþorsk er að finna. Með kolasnurvoðinni gætu hafist veiðar á kolaslóðum á innfjörðum án þess að valda aukinni sókn í innfjarðarþorskinn. Innan skamms verður það tekið fyrir í norska stjórnkerfinu hvort leyfa eigi innfjarðaveiðar með kolasnurðvoðinni.

Lengd og breidd snurvoðarpoka eru skilgreindar í norskum reglugerðum en hafa ekki hentað minni bátum sem réðu illa við þá. Fjórða verkefnið fólst í því að skala snurvoðarpokana niður sem Ólafur sagði að hefði ekki verið flókið verk en þó þurfti að rannsaka kjörhæfni þeirra áður en reglugerðir voru settar um þá.