Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 11,9 milljörðum króna í maí. Er það rúmlega 2 milljörðum minna en í maí 2015. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Aflaverðmæti botnfisks nam rúmlega 8,4 milljörðum í mái og dróst saman um 8,3% frá sama tíma og í fyrra. Verðmæti uppsjávarafla — sem var nær eingöngu kolmunni — nam tæpum 1,7 milljörðum og dróst saman um 30% miðað við maí 2015. Verðmæti flatfiskafla nam 1,25 milljörðum og dróst verðmætið saman um 27% miðað við sama tíma í fyrra. Verðmæti skel- og krabbadýrafla nam rúmum 600 milljónum í maí.

Á tímabilinu júní 2015 til maí 2016 var samanlagt aflaverðmæti 142 milljarðar sem er 5,6% samdráttur frá því árið áður.