Árið 2017 var afli íslenskra skipa tæplega 1.177 þúsund tonn, 109 þúsund tonnum meiri en árið 2016. Aflaverðmæti fyrstu sölu var um 110 milljarðar króna og dróst saman um 17,3% frá fyrra ári. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Alls veiddust tæplega 426 þúsund tonn af botnfiski árið 2017 sem er 30 þúsund tonnum minna en árið 2016. Aflaverðmæti botnfiskafla nam rúmum 76 milljörðum króna árið 2017 og dróst saman um 17,7% frá fyrra ári.

Líkt og fyrri ár veiddist mest magn af uppsjávartegundum, en af þeim veiddust rúmlega 718 þúsund tonn árið 2017 sem er aukning um 143 þúsund tonn miðað við árið 2016.

Verðmæti flatfiskafurða nam tæpum 7,5 milljarði króna og dróst saman um 17,3% miðað við 2016. Af skel- og krabbadýrum veiddust 10,6 þúsund tonn sem er 15,5% samdráttur frá árinu 2016.