Aflaverðmæti í október 2015 var tæplega 12 milljarðar króna. Það er 13% minna en í sama mánuði árinu áður. Verðmæti uppsjávarafla minnkaði mest, eða um 54,7%. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Þá var verðmæti botnfisksafla örlitlu meira en árinu áður, en verðmæti aflans jókst um 0,3% og nam 9,2 milljörðum króna.

Á árstímabili hins vegar jókst heildaraflaverðmæti um 9%. Það er hækkun úr 151 milljarði króna í 164 milljarða.

Þá munar mest um 9,8 milljarða króna verðmætaaukningu í botnfiskafla og 1,9 milljarða króna verðmætaaukningu í uppsjávarfiski.